Ásmundur Friðriksson er áfram konungur þjóðveganna

Í liðinni viku birti skrifstofa Alþingis rangar upplýsingar um aksturskostnað þingmanna á síðasta ári og fór frétt þess efnis á flug í fjölmiðlum, þar á meðal á vef Skessuhorns og í Kjarnanum. Samkvæmt upplýsingum Alþingis átti Guðjón S Brjánsson alþingismaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi að hafa verið sá þingmaður sem ók mest á síðasta ári í störfum sínum fyrir Alþingi. Hefði hann samkvæmt því átt að hafa fellt úr sessi ókrýndan konung þjóðveganna; Ásmund nokkurn Friðriksson Sjálfstæðismann. Skrifstofa Alþingis sendi hins vegar frá sér leiðréttingu sem Kjarninn birtir. Samkvæmt frétt miðilsins höfðu komið í ljós mistök við útreikning aksturskostnaðar Guðjóns sem fólust í því að þegar bílaleigubíll sem tekinn hafði verið á leigu fyrir Guðjón fyrir rúmum þremur árum var gerður upp þá reyndist hann hafa ekið aðeins meira á ári en gert hafði verið ráð fyrir í langtímaleigusamningnum. Þegar það hafði verið leiðrétt kemur í ljós að enn á ný er Ásmundur Friðriksson konungur þjóðveganna. Guðjón Brjánsson er hins vegar í öðru sæti.

Þar sem Norðvesturkjördæmi er víðfeðmt komast fleiri þingmenn kjördæmisins á topp tíu listann. Þeir eru Sigurður Páll Jónsson Miðflokki, Lilja Rafney Magnúsdóttir VG, Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokki og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki. Akstur ráðherra er ekki tilgreindur á listanum, enda fellur hann undir annan útgjaldalið í ríkisreikningi.

Sjá nánar fréttaskýringu Kjarnans um akstur þingmanna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir