
Svavar Gestsson fyrrum ráðherra er látinn
Svavar Gestsson fv. alþingismaður, ráðherra og sendiherra er látinn, 76 ára að aldri. Svavar var fæddur 26. júní 1944 á Guðnabakka í Borgarfirði, elstur átta systkina, barna hjónanna Guðrúnar Valdimarsdóttur og Gests Sveinssonar. Svavar var fyrst kosinn á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið árið 1978 og sat á þingi í 21 ár. Áður starfaði hann m.a. sem blaðamaður og síðar ritstjóri Þjóðviljans. Eftir að Svavar settist á þing tók hann að sér störf ráðherra í fjórum ríkisstjórnum en eftir að þingsetu lauk varð hann sendiherra fyrir Ísland í nokkrum löndum. Þegar starfsævi Svavars lauk tók hann að sér þátttöku í fjölmörgum menningarverkefnum, m.a. á heimaslóð í Dölum. Ritstýrði hann Breiðfirðingi, riti Breiðfirðingafélagsins, og sat í undirbúningsnefnd fyrir stofnun Sturluseturs til minningar um verk Sturlu Þórðarsonar sagnaritara. Þá var hann ötull talsmaður Gullna söguhringsins sem nær frá Búðardal, út fyrir Klofning og að Saurbæ í Dölum.
Eftirlifandi eiginkona Svavars er Guðrún Ágústsdóttir, fyrrum forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Börn Svavars af fyrra hjónabandi eru Svandís, Benedikt og Gestur og börn Guðrúnar eru Ragnheiður, Árni og Gunnhildur.
Nánar er farið yfir æviferil Svavars Gestssonar í ítarlegri samantekt á Vísi.is