Nýja leikskólahúsið.

Formleg opnun Hnoðrabóls á nýjum stað

Síðastliðinn föstudag fór fram formleg opnun leikskólans Hnoðrabóls í nýju húsnæði á Kleppjárnsreykjum. Forsvarmenn Borgarbyggðar kíktu í heimsókn og færðu starfsfólki og nemendum rósir í tilefni þess að starfsemin er nú alfarið flutt frá Grímsstöðum þar sem skólinn hefur verið rekinn undanfarin þrjátíu ár. Leikskólinn Hnoðraból var upphaflega stofnaður 1982 af áhugasömum foreldrum í uppsveitum Borgarfjarðar. Var hann fyrstu árin til húsa í Reykholti eða á Kleppjárnsreykjum þar til Reykholtsdalshreppur festi kaup á nýlegu einbýlishúsi á Grímsstöðum árið 1991. Í dag eru um 30 börn á leikskólanum og starfsmenn eru tólf. Leikskólastjóri er Sjöfn Guðlaug Vilhjálmsdóttir.

Á föstudaginn komu Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri, Hlöðver Ingi Gunnarsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs og Soffía D. Jónsdóttir gæða- og mannauðsstjóri í heimsókn. Sungið var fyrir gesti, blóm afhent og starfsmenn leikskólans fengu köku með kærri kveðju frá Borgarbyggð. Var starfsmönnum þakkað sérstaklega fyrir ómælda þolinmæði og sveigjanleika í gegnum þessar breytingar á húsakosti og starfsemi skólans. Þá var farin skoðunarferð um nýja húsnæðið og m.a. skoðuð sameiginleg rými leikskólans og grunnskólans á staðnum. Þar er að finna kaffistofu, fundaherbergi, vinnuherbergi fyrir sérfræðinga og skrifstofur. Slíkt skapar hagræði og er stefnan sett á aukið samstarf milli skólastiga; leikskólans og grunnskólans.

Að sögn Sjafnar leikskólastjóra er áætlað að hafa opið hús fyrir íbúa og aðra gesti síðar, eða þegar reglur um samkomutakanir verða rýmkaðar. Sjöfn kveðst afar þakklát fyrir sína hönd, annarra starfsmanna og leikskólabarnanna fyrir þá góðu aðstöðu sem sveitarfélagið er búið að byggja og innrétta fyrir starfsemina. Einnig fyrir góða lóð umhverfis skólann.

Sjöfn Guðlaug leiskólastjóri ræðir hér við nokkur af yngri börnunum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mokveiði í dragnót

Dragnótarbáturinn Steinunn SH frá Ólafsvík lenti heldur betur í mokveiði rétt undan Ólafsvík á sunnudaginn. Köstuðu skipverjar dragnótinni aðeins þrisvar... Lesa meira