Borgarbyggð opnar í dag nýtt þjónustuver

Nýtt þjónustuver tekur til starfa í Borgarbyggð í dag. Í sveitarfélaginu var ráðist í rýnivinnu og ferlagreiningu á stjórnsýslunni á síðasta ári og voru í kjölfarið innleiddar skipulagsbreytingar til að efla starfsemina. Nýtt svið var stofnað innan sveitarfélagsins, sem nefnist stjórnsýslu- og þjónustusvið. Þar verður áhersla lögð á að auka faglega stjórnsýslu, skilvirkni og þjónustu gagnvart íbúum og gestum sveitarfélagsins. „Til þess að einfalda afgreiðslu erinda og auka gæði þjónustu var ákveðið að stofna nýtt þjónustuver. Hlutverk þjónustuversins er að veita hágæða þjónustu og að vera upplýsingaveita fyrir íbúa Borgarbyggðar og annarra sem leita til þjónustuversins, óháð þeirri leið sem erindi berast. Þjónustufulltrúar munu kappkosta að veita framúrskarandi þjónustu og upplýsingagjöf þar sem áhersla verður lögð á að leysa erindi jafnóðum við fyrstu snertingu. Þannig verður leitast við að stytta afgreiðslutíma erinda og einfalda boðleiðir,“ segir á vef sveitarfélagsins.

Þjónustuverið verður opið frá kl. 9:30 til 15:00 alla virka daga. Netfang er thjonustuver@borgarbyggd.is og er fólk hvatt til að nýta það til að hafa samband. Þá stendur til að opna fyrir netspjall á heimasíðu Borgarbyggðar en það verður kynnt síðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir