Guðjón Brjánsson ók mest þingmanna á liðnu ári. Á þessari mynd er hann að vísu aftursætisfarþegi, en myndin var tekin í strætóleik í kjölfar þess að Alþingi samþykkti umgjörð um uppbyggingu borgarlínu.

Guðjón ók mest á liðnu ári

Í liðinni viku kom það í ljós að Guðjón S Brjánsson alþingismaður Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi var sá þingmaður sem ók mest á síðasta ári í störfum sínum fyrir Alþingi. Felldi hann þar með úr sessi ókrýndan konung þjóðveganna; Ásmund nokkurn Friðriksson Sjálfstæðismann. „Já, það er líklega engum blöðum um það að fletta að ég hef tekið við keflinu af títtnefndum kollega mínum, um meint span um þjóðvegi landsins sem einhverjum kann að þykja að keyri úr hófi,“ skrifar Guðjón á Facabook síðu sína af þessu tilefni. „Ég gengst fúslega við þessum titli sem riddari götunnar, hef lagt mig fram um að fara eins mikið um kjördæmið og ég get. Ég hef fyrst og fremst farið akandi í stað þess að fljúga sem er eðlilega talsverður hluti af ferðakostnaði sumra landsbyggðarþingmanna, eftir aðstæðum. Mér hefur verið úthlutaður bílaleigubíll og tel bæði þægilegt og nytsamleg að nýta landleiðina til samskipta í kjördæminu og vera lang-hagkvæmasta kostinn, flýg nánast aldrei,“ skrifaði Guðjón. Hann bætir því við til glöggvunar að hver einasti ekinn kílómeter er skráður í rafræna akstursdagbók og erindi tilgreind sundurliðuð, þ.m.t. tilfallandi einkaakstur sem skuldfærður er skv. reglum þingsins en þær má finna á vef þingsins ásamt ýmsum öðrum fróðleik.

Samtals kostaði akstur Guðjóns skattgreiðendur 2.669 þúsund krónur á síðasta ári. Ásmundur Friðriksson situr í öðru sæti listans með heildarkostnað upp á  2.218 þúsund krónur. Þar sem Norðvesturkjördæmi er víðfeðmt komast fleiri þingmenn kjördæmisins á topp tíu listann. Þeir eru Sigurður Páll Jónsson Miðflokki, Lilja Rafney Magnúsdóttir VG, Haraldur Benediktsson Sjálfstæðisflokki og Halla Signý Kristjánsdóttir Framsóknarflokki. Akstur ráðherra er ekki tilgreindur á listanum, enda fellur hann undir annan útgjaldalið í ríkisreikningi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir