Því er spáð að lengd núverandi kreppu ráðist af hversu langvarandi samdráttarskeið eða kreppa verður í helstu viðskiptalöndum okkar m.t.t. ferðaþjónustu og hversu mikið krónan gefur eftir gagnvart þeim gjaldmiðlum. Tekjufall sveitarfélaga ræðst m.a. af umfangi ferðaþjónustu. Myndin er frá Stykkishólmi.

Spáð fyrir um áhrif aukins atvinnuleysis á tekjur sveitarfélaga

Í nýjum Hagvísi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, sem kemur út í þessari viku, er fjallað um hvað atvinnuleysi á nýliðnu og yfirstandandi ári geti haft á tekjur sveitarfélaga í landshlutanum. Gerðir eru fyrirvarar um magn og gæði gagna sem unnið var úr, en greiningin gefur engu að síður til kynna að aukning atvinnuleysis muni hafa talsverð áhrif á heildartekjur sveitarfélaganna á Vesturlandi. Áætlað er að tekjur stærstu sveitarfélaga á Vesturlandi vegna aukins atvinnuleysis muni skerðast sem þessu nemur:

Á Akranesi -1,2% til skemmri tíma litið en -2,5% til lengri tíma litið.

Í Hvalfjarðarsveit -1,4% til skemmri tíma litið en -2,7% til lengri tíma litið.

Í Borgarbyggð -1,0% til skemmri tíma litið en -4,0% til lengri tíma litið.

Í Grundarfjarðarbæ -3,6% til skemmri tíma litið en -7,1% til lengri tíma litið.

Í Stykkishólmsbæ -4,1% til skemmri tíma litið en -8,8% til lengri tíma litið.

Í Snæfellsbæ -4,4% til skemmri tíma litið en engin niðurstaða fékkst þegar til lengri tíma var litið.

Í Dalabyggð -3,0% til skemmri tíma litið en -10,7% til lengri tíma litið.

Stærri kreppa en eftir 2008

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt mati margra sé útlit fyrir eina verstu kreppu sem Ísland hefur upplifað í rúm 90 ár – eða síðan Kreppan mikla reið yfir heimsbyggðina og hitti Ísland fyrir vegna hruns á mörkuðum erlendis, aðallega fyrir sjávarafurðir. „Þó margir telji að þetta tímabil verði stutt, munu áhrif þess á ferðaþjónustuna vara lengur og er verið að tala um að ferðaþjónustan verði 1 – 2 ár að ná sér á strik eftir að takmörkunum á ferða- og samkomutakmörkunum verður aflétt. Þarna ræður miklu um hversu langvarandi samdráttarskeið eða kreppa verður í helstu viðskiptalöndum okkar (m.t.t. ferðaþjónustu) og hversu mikið krónan gefur eftir gagnvart þeim gjaldmiðlum. Ómögulegt er nú að spá en sumt bendir til að þetta gæti orðið dýpri kreppa á heimsvísu en á árunum eftir 2008. Þó forsendur til að takast á við áfall sem þetta séu víða góðar hérlendis sbr. lága skuldastöðu heimilanna, sterka stöðu ríkissjóðs og margra sveitasjóða þá er íslenska hagkerfið mjög opið og háð milliríkjaviðskiptum og því veltur framtíðin ekki síst á því hvernig öðrum þjóðum tekst upp í baráttunni við þennan vágest og þær efnahagsþrengingar sem á eftir koma. Af þessum ástæðum má búast við atvinnuleysi sem spáð er að geti orðið allt að 17% á landsvísu. Hins vegar mun þetta hitta einstök landsvæði og sveitarfélög misjafnlega fyrir. Þess vegna var ráðist í að reyna að meta áhrif atvinnuleysis á tekjur sveitarfélaga á Vesturlandi,“ sagði í inngangi Hagvísis sem Vífill Karlsson hagfræðingur SSV tók saman.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira