Hækkun í helstu flokkum verslunar. Heimild: Rannsóknasetur verslunarinnar.

Kortavelta landans í desember sló fyrri met

Heildarkortavelta Íslendinga hefur aldrei verið hærri en í desember síðastliðnum, alls 83,8 milljarðar sem er aukning um 8,7% frá fyrra ári. „Líklegt þykir að miklar takmarkanir á verslunarferðum landans til útlanda hafi hér haft mikil áhrif. Stærstum hluta var varið í verslunum, alls 55,3 milljörðum (eða 66% af heildarveltu) á meðan 28,5 milljörðum var eytt í þjónustu,“ segir í samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Hækkun var á milli ára í flestum flokkum verslunar, sbr meðfylgjandi mynd. Stórmarkaðir og dagvöruverslanir voru sem oftar langstærsti einstaki flokkurinn en þar nam veltan tæpum 22,6 milljörðum og jókst um alls 23% á milli ára. Hlutfallslega hækkaði hinsvegar velta í raf- og heimilistækjaverslunum mest eða alls um 41% borið saman við desember 2019 (úr 2,9 millj. í 4,4 millj). Velta í fataverslunum jókst einnig verulega. Veltan nam alls 5,6 milljörðum og jókst um 22% samanborið við sama tíma í fyrra og 45% milli nóvember og desember 2020.

Líkar þetta

Fleiri fréttir