Bragi Þór Svavarsson skólameistari MB og Eva Karen Þórðardóttir fræðslustjóri Símans.

Menntaskóli Borgarfjarðar og Síminn í fræðslusamstarf

Menntaskóli Borgarfjarðar og Síminn hófu samstarf nú í haust undir heitinu „Síminn skapar tækifæri fyrir sitt fólk.“ Markmið verkefnisins er að styðja við starfsfólks Símans til að afla sér frekari menntunar og því var leitað samstarfs við MB um fræðsluhliðina. Allt stefnir í að þrettán starfsmenn Símans verði skráðir nemendur MB í gegnum þessa námsleið nú á vordögum. Starfsfólk Símans sem ekki hefur lokið formlegu námi, svo sem stúdentsprófi eða iðnnámi, geti nú skráð sig í fjarnám við skólann og sinnt námi samhliða störfum sínum hjá Símanum. Samningur Símans og MB felur í sér að þessir nemendur fá aukna athygli umsjónaraðila innan skólans ásamt því að Síminn skuldbindur sig að veita sínu starfsfólki svigrúm svo námið sitji ekki á hakanum.

Við upphaf námsins er farið vandlega yfir og metið fyrra nám og reynsla, til dæmis litið til raunfærnimats en með slíku mati geta nemendur unnið sér inn einingar sem gefnar eru út frá þeirri reynslu sem þeir hafa öðlast í störfum sínum. Allir nemendur hafa farið í gegnum raunfærnimat á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands. Nemendum er úthlutað umsjónarkennara sem hefur það hlutverk að fylgjast með framvindu og styðja nemendur ásamt því að námsráðgjöf stendur þeim til boða. Alls eru 17 nemendur skráðir í þessa námsleið á vorönn.

„Við hjá Menntaskóla Borgarfjarðar lítum það mjög jákvæðum augum að koma til móts við fólk sem á einhverjum tímapunkti hefur ekki náð að ljúka námi. Það er mikilvægt hlutverk menntastofnana að finna leiðir sem henta sem flestum og ekki síður ef það er hægt að gera í samvinnu við atvinnulífið,“ segir Bragi Þór Svavarsson skólameistari.

Líkar þetta

Fleiri fréttir