Píratar ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum

Skráning í prófkjör Pírata er nú hafin og stendur yfir til 3. mars, en þann sama dag hefst jafnframt prófkjörið sjálft á kosningavef Pírata, x.piratar.is. Prófkjörinu lýkur 13. mars og mun þá liggja fyrir hverjir verða í framboði fyrir Pírata í komandi alþingiskosningum. „Hver sem er getur boðið sig fram í prófkjörinu. Til þess þarf viðkomandi að skrá sig í Pírata, en það má gera á vefnum x.piratar.is. Atkvæðisrétt í prófkjörinu hafa þau sem skráð hafa verið í flokkinn í 30 daga eða lengur. Síðustu forvöð að skrá sig í Pírata til að geta greitt atkvæði í prófkjörinu eru því 11. febrúar,“ segir í tilkynningu frá flokknum. Þá kemur fram að Píratar munu bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi kosningum og verður sameiginlegt prófkjör í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. „Allir meðlimir Pírata sem hafa kosningarétt í næstu alþingiskosningum geta boðið sig fram í prófkjörum Pírata, hvar sem er á landinu. Allar upplýsingar um prófkjörin, skráningar í framboð og atkvæðisrétt má nálgast á prófkjörsvef Pírata https://piratar.is/kosningar/“

Líkar þetta

Fleiri fréttir