Bjóða heildarlausn á þorrablótum á netinu

Á þessum fordæmalausu tímum verða þorrablótin fyrir barðinu á samkomutakmörkunum líkt og margt annað. Með það að markmiði að halda þorrablótum 2021 lifandi hafa nokkur fyrirtæki sameinað krafta sína og búið til lausn; „Þorrablót heim í stofu.“

„Það eru fyrirtækin Þrjár á priki, Hilton hótel, Kalla K og Kjarnafæði sem búið hafa til pakka sem félög, fyrirtæki og hópar geta keypt á netinu. Í pakkanum felst gæða þorramatur með öllu, skemmtiatriði með landsfrægum skemmtikröftum ásamt möguleika á streymi á eigin skemmtiatriðum í sinn hóp. Fjölskyldur og vinahópar geta keypt pakka fyrir sig og notið í samræmi við fjöldatakmarkanir, fyrirtæki geta haldið fyrirtækjaþorrablótið og keypt pakka fyrir sína starfsmenn sem njóta heima í stofu. Sérlausn er fyrir íþrótta- og ungmennafélög sem standa fyrir þorrablótum í sínum samfélögum, en í þeirra lausn er sérstaklega hugsað fyrir möguleikum á fjáröflun félaganna.“

Þá segir í tilkynningu að heyrst hafi að um allt land sitji þorrablótsnefndir á neyðarfundum og telja sig jafnvel þurfa að fella niður þorrablótin, en nú gerist þess ekki þörf. „Gísli Einarsson verður veislustjóri og skemmtikraftar sem koma fram eru Jóhanna Guðrún og Davíð ásamt Eyþóri Inga. Landinn hefur sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni síðustu mánuði við að færa flest á netið, eins og vinnu, jólatónleika, fjölskylduboð, jarðarfarir og fleira, en nú er komið að þorrablótum á netinu,“ segir í tilkynningu.

Heimasíða er komin í loftið á slóðinni www.torrablot.is en þar hægt að bóka og fá frekari upplýsingar og leggja inn pantanir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir