Nýjar samkomutakmarkanir taka gildi á miðvikudaginn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samráði við Þórólf Guðnason sóttvarnalækni breytingar á samkomutakmörkunum sem taka gildi frá og með miðvikudeginum 13. janúar og gilda til 17. febrúar næstkomandi. Sóttvarnalæknir lagði til tilslakanir í ljósi þess hversu vel hefur gengið undanfarið við að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar en þó með þeim fyrirvara að þróunin snúist ekki á verri veg. Þá benti hann á að víða erlendis sé faraldurinn í mikilli uppsveiflu sem m.a. megi rekja til nýs afbrigðis af veirunni sem hefur enn ekki náð að breiða úr sér hér á landi.

Helstu breytingar sem taka nú gildi eru þær að almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns. Í verslunum er gert ráð fyrir einum viðskiptavini á hverja fjóra fermetra en aldrei fleiri en 100 viðskiptavini í rými.

Starfsemi í heilsu- og líkamsræktarstöðvum má fara af stað aftur en með ströngum skilyrðum. Fjöldi gesta má ekki fara yfir helming þess sem kveðið er á um í starfsleyfi, eða helmingur þess sem búningsaðstaða gerir ráð fyrir ef gestafjölda er ekki getið í starfsleyfi. Aðeins verður heimilt halda skipulagða hópatíma þar sem hámarksfjöldi í hverjum hópi eru 20 manns og að gestir séu skráðir í hvern tíma. Þá skulu búningsklefar vera lokaðir. Börn fædd 2005 eða síðar eru ekki talin með í gestafjölda.

Íþróttaæfingar fyrir börn og fullorðna verða heimilar með og án snertingar innan- og utandyra, en ekki mega vera fleiri en 50 vera saman í rými. Þá verða íþróttakeppnir barna og fullorðinna heimilar án áhorfenda. Skíðasvæðum verður heimild að hafa opið með takmörkunum samkvæmt reglu fjögur í útgefnum reglum skíðasvæðanna í landinu. Tryggja skal að þeir sem eru einir á ferð deili ekki lyftustól með öðrum og halda skal tveggja metra nálægðarmörkum auk þess sem sömu reglur gilda um grímunotkun og annars staðar.

Í sviðslistum mega allt að 50 manns vera saman á sviði á æfingum og sýningum og andlitsgrímur skulu vera notaðar eins og hægt er og tveggja metra nálægðarmörk virt eftir föngum. Gestir í sal mega vera allt að 100 fullorðnir og 100 börn fædd 2005 eða síðar og gestir skulu sitja í sætum sem eru skráð á nafn. Fullorðnir eiga að bera grímu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir