Íbúum á Vesturlandi fjölgaði um 47 á síðasta ári

Þjóðskrá hefur birt tölur um íbúafjölda 1. janúar síðastliðinn. Þar kemur fram að íbúum á Vesturlandi fjölgaði um 47 á tímabilinu 1. desember 2019 til 1. janúar 2021. Eru þeir nú 16.713 talsins. Fjölgunin er 0,3% milli ára. Hlutfallslega mest fjölgun íbúa varð í Hvalfjarðarsveit þar sem nú búa 647, fjölgaði um 22 eða 3,5% á síðustu þrettán mánuðum. Á Akranesi fjölgaði um 163 íbúa eða um 2,2% og er íbúatalan nú 7.696. Þetta jafngildir því að 46,05% íbúa á Vesturlandi eru búsettir á Akranesi og hefur hlutfallið aldrei verið svo hátt áður. Í Snæfellsbæ fjölgaði um átta íbúa og um einn íbúa í Skorradalshreppi og einn í Helgafellssveit. Langmest fækkun íbúa varð í Borgarbyggð þar sem fækkaði um 104 íbúa á síðustu þrettán mánuðum, eða um 2,7%. Íbúar þar eru nú 3.751 talsins. Þá fækkaði um 15 íbúa í Stykkishólmi, 14 íbúa í Grundarfirði, 10 íbúa í Dalabyggð og 5 íbúa í Eyja- og Miklaholtshreppi.

Þegar horft er til alls landsins þá hefur íbúum Fljótsdalshrepps fjölgað hlutfallslega mest síðastliðið ár eða um 14% en íbúum þar fjölgaði þó einungis um 12, eða úr 86 í 98. Íbúum fækkaði hlutfallslega mest í Reykhólahreppi um 9,9% og Svalbarðsstrandarhreppi um 8,5%. Þá fækkaði íbúum í 27 sveitarfélagi af 69 á ofangreindu tímabili. Lítilsháttar fækkun varð á Vestfjörðum, en þó ekki meiri en sem nemur 7 íbúum. Mest hlutfallsleg fjölgun var á Suðurlandi eða um 1,8% sem er 570 íbúa fjölgun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir