Heimila Íslandspósti að fella niður afslætti af magnpóstsendingum

Póst- og fjarskiptastofnun hefur með úrskurði 30. desember síðastliðinn fallist á beiðni Íslandspósts um að gera verulegar breytingar á þeim afsláttarkjörum fyrir magnpóst, sem verið hafa í gildi frá árinu 2012. Með ákvörðun sinni hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur til að gera athugasemdir við ósk Íslandspósts um breytingar á gjaldskrá félagsins vegna magnpósts. Vísað er til þess að kostnaðarbókhald sýni að afsláttarsvigrúm ÍSP hafi farið minnkandi og sé nú svo komið að heildarafsláttur til söfnunaraðila er orðin meiri en afsláttarsvigrúm kostnaðarbókhalds ÍSP leiðir fram.

Íslandspóstur mun í kjölfar þessarar niðurstöðu PFS lækka þau afsláttarkjör sem í boði hafa verið til þeirra sem senda magnpóst til heimila og fyrirtækja, þ.e. innheimt verð fyrir dreifingu á öllum frípósti, bæklingum og auglýsingaritum, sem send eru út ónafnmerkt í hús. Þessi stefna er raunar í samhljómi við þá ákvörðun fyrirtækisins að hækka gjaldskrá fyrir bréfasendingar um hvorki meira né minna en 15% um síðustu áramót. Í tilkynningu frá Íslandspósti vegna hennar segir að ljóst sé að á næstu árum megi ætla að bréfum fækki talsvert vegna umhverfisvitundar og rafrænnar umbyltingar í fyrirtækjum og hjá einstaklingum. „Samskipti sem hingað til hafa verið í gegnum bréfasendingar eru í auknum mæli með rafrænum hætti og hefur þessi þróun mikil áhrif á verð á þessum vöruflokki,“ sagði í tilkynningu ÍSP.

Líkar þetta

Fleiri fréttir