Bjarki Pétursson kjörinn Íþróttamaður Borgarfjarðar 2020

Bjarki Pétursson kylfingur úr Borgarnesi var kjörinn Íþróttamaður Borgarfjarðar 2020. Kjörinu var lýst með óvenjulegum hætti að þessu sinni, en því var streymt á facebook síðu UMSB þar sem meðal annars er rætt við þrjá efstu í kjörinu. Bjarki Pétursson kylfingur varð Íslandsmeistari í golfi 2020 og auk þess Íslandsmeistari í liðakeppni með Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Þetta er í 6. skipti sem Bjarki hlýtur titilinn Íþróttamaður Borgarfjarðar og annað árið í röð núna.

Í öðru sæti í kjörinu varð Kristín Þórhallsdóttir kraftlyftingakona á Laugalandi og margfaldur Íslandsmetahafi í klassískum kraftlyftingum. Kristín er stigahæsta kona í klassískum kraftlyftingum frá upphafi.

Í þriðja sæti varð Sigrún Sjöfn Ámundadóttir leikmaður með bikarmeistaraliði Skallagríms í körfubolta og handhafi titilsins meistara meistaranna.

Í fjórða sæti varð Alexandrea Rán Guðnýjardóttir kraftlyftingakona og í fimmta sæti Bjarni Guðmann Jónsson, körfuknattleiksmaður.

Alls voru það ellefu sem hlutu tilnefningu að þessu sinni. Í sætum 6 til 11 voru eftirtaldir (í stafrófsröð):

Brynjar Snær Pálsson, knattspyrnumaður

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, sundkona

Guðrún Karitas Hallgrímsdóttir, frjálsar íþróttir

Helgi Guðjónsson, knattspyrnumaður

Kolbrún Katla Halldórsdóttir, hestaíþróttakona

Marinó Þór Pálmason, körfuknattleiksmaður

Sigursteinn Ásgeirsson, frjálsar íþróttir.

Valborg Elva hlaut Auðunsbikarinn

Auðunsbikarinn er gefinn til minningar um Auðunn Hlíðkvist Kristmarsson sem lést af slysförum í Borgarnesi árið 1995 einungis 14 ára gamall. Það eru foreldrar Auðuns heitins sem gefa verðlaunin. Valborg Elva Bragadóttir, 14 ára, knattspyrnukona með ÍA og körfuboltakona sem spilar með Skallagrími, hlýtur Auðunsbikarinn að þessu sinni. Hún hefur náð gáðum árangri í báðum þessum íþróttagreinum á nýliðnu ári.

Bragi Þór Svavarsson formaður UMSB sagði í ávarpi sínu að nýliðið ár hafi verið skrítið í íþróttum; bæði æfingum og keppni. Engu að síður hafi borgfirskt íþróttafólk náð stórglæsilegur árangur á liðnu ári. Það var Gísli Einarsson dagskrárgerðarmaður sem tók saman myndband sem lýsir úrslitum í kjörinu.

Sjá myndband UMSB sem Gísli Einarsson dagskrárgerðarmaður tók saman.

Líkar þetta

Fleiri fréttir