Bíll við Mánabraut alþakinn sementi. Ljósm. mm.

Gríðarlegt tjón á húsum og bílum þegar þykkt lag af sementi lagðist yfir í nótt

Í gær og nótt var unnið við dælingu á sementi úr flutningaskipinu UBD Cartagena við sementsbryggjuna á Akranesi og í sementssíló númer fjögur við höfnina. Ekki vildi betur til en svo að sílóið yfirfylltist síðla nætur og dældist sement upp úr því af miklum krafti og fauk yfir hús og bíla í nærliggjandi götum. Dæla átti 4.600 tonnum af norsku sementi í sílóið, en það yfirfylltist um klukkan 5 í morgun með þeim afleiðingum að sement sprautaðist upp úr því. Gunnar Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar ehf. sagði í samtali við Skessuhorn að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Þarna hafi átt að vera sólarhringsvakt, en ljóst að eftirlitið hafi brugðist við dælingu úr skipinu.

Ekki er vitað hversu mikið af sementi sprautaðist út í loftið en af ummerkjum í nágrenninu að dæma voru það einhver tonn. Samkvæmt veðurmælum var hæg sunnan- eða suðaustanátt þegar þetta átti sér stað og fjögurra stiga hiti. Íbúar við Mánabraut, sem liggur samhliða sementssílóunum, voru í morgun að háþrýstiþvo þykkt lag af sementi af bílum og húsum. Þá var Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar einnig mætt á staðinn til aðstoðar við hreinsistörf og lögregla var mætt á svæðið til að skrá tjón og meta aðstæður. Loka á niðurföllum á svæðinu enda afleitt að fá sement í frárennslisrör.

Stefán Jónsson á tvö húsanna við Mánabraut. Hann segir í samtali við Skessuhorn að mengunaróhöpp sem þessi frá starfsemi Sementsverksmiðjunnar séu algeng á síðustu árum og segir löngu tímabært að starfseminni verði hætt á þessum stað. Kveðst hann andvígur því að starfsleyfi fyrir geymslu sements á þessu svæði verði endurnýjað. „Geymsla og flutningur á sementi á þessum litla hluta fyrrum starfssvæðis Sementsverksmiðjunnar, svona nærri íbúabyggð, er algjör tímaskekkja, nú eftir að sementsframleiðslu var hætt og verksmiðjan að öðru leyti rifin. Geymslusíló af þessu tagi eiga ekki að vera til staðar svo nærri íbúabyggð og auk þess ljóst að bæði tækjakostur er úreltur og mannskapurinn sem kemur að flutningi og geymslu er ekki að valda verkefninu,“ segir Stefán.

Stefán segir að venjulegur háþrýstiþvottur á húsum og bílum dugi ekki til að ná sementinu af. Eftir sitji fíngert ryk sem fari ekki af með vatni. Því þurfi bæði að skipta um gler og klæðningar á húsum eftir að svona gerist. Hann segir að í sement sé blandað sterkum efnum sem greypa sig inn í gler og stál. Því sé ljóst að um verulegt tjón er að ræða. Bílar og hús við a.m.k. Mánabraut, Suðurgötu og Kirkjubraut voru alsetnir sementi og því er gríðarlegt hreinsunarstarf framundan.

Ljóst er að bílar hafa skemmst, því nær ómögulegt er að ná sementinu úr fölsum og samskeytum.

Slökkviliðsmenn aðstoða nú við hreinsun húsa og bíla.

Þessi bíll stendur við Kirkjubraut.

Gunnar Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar ehf. var á vettvangi í morgun. Sílóið lengst til hægri á myndinni yfirfylltist við uppskipun í nótt og stóð strókurinn af sementi upp úr því og fauk yfir nærliggjandi götur.

Stefán Jónsson íbúi við Mánabraut segir löngu ljóst að ekki á að endurnýja starfsleyfi fyrir sementsgeymslu á þessum stað.

Svona leit bíll hjónanna við Mánabraut 5 út þegar komið var út í morgun. Ljósm. Katrín Lilja Jónsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir