Áhöfnin á Kristni HU: Þorsteinn Bárðarson, Bárður Jóhönnuson, sem er skipstjóri á móti Þorsteini, Aron Jóhannes Leví Kristjánsson, Benedikt Björn Ríkharðsson, Svavar Kristmundsson og Hafsteinn Ingi Viðarsson. Ljósm. af.

Aflamet hjá línubátnum Kristni HU

Línubáturinn Kristinn HU, sem er gerður út frá Skagaströnd og Ólafsvík, gerði það gott í desember. Skipverjar komu með 288 tonn að landi og aflaverðmætið var 109 milljónir króna. Þorsteinn Bárðarson, annar tveggja skipstjóra á Kristni og útgerðarmaður, segir þetta metmánuð í sögu útgerðarinnar sem var stofnuð árið 1997. Hann segir að aldrei áður hafi Kristinn landað jafn miklum afla en á síðasta ári, en hann var í heildina 1.769 tonn og aflaverðmætið 556 miljónir. Það sem gerði þetta háa aflaverðmæti í desember var að sökum erfiðs tíðarfars var skortur af fiski á mörkuðum og fiskverð þar af leiðandi mjög hátt. Kristinn landaði öllum sínum afla á Fiskmarkað Snæfellsbæjar. „Við gátum verið í skjóli af landi í norðanáttinni sem var ríkjandi vindátt nánast allan mánuðinn. Héldum okkur sunnan við jökul þar sem veiði var góð og lönduðum svo á Arnarstapa. Stærsta löndunin var 18,5 tonn hjá okkur,“ segir Þorsteinn. Þess má geta að meðal aflaverð var 378 krónur í desember.

Þorsteinn segir að lokum að þakka megi þennan árangur því góða og dugmikla starfsfólki sem stendur á bakvið útgerðina. Það megi til dæmis þakka fólkinu í beitningunni, pabba á balabílnum og að sjálfsögðu sjómönnunum sem eru hörku drengir. Öll þessi heild hefur verið tilbúin að leggja meira á sig en hægt er að ætlast til – og það ber að þakka fyrir,“ segir Þorsteinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir