
Víðtæk rafmagnsbilun
Í gærkvöldi varð rafmagnslaust á stórum hluta Vesturlands, m.a. Borgarfirði, Snæfellsnesi og Akranesi, auk hluta Húnavatnssýslna. Misjafnt var hversu lengi íbúar voru án rafmagns, en það var allt frá nokkrum mínútum á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit til nokkurra klukkutíma. Bilunin var rakin til skálakeðju í tengivirki á Vatnshömrum í Andakíl, en hún er hluti af Hrútatungulínu-1. Viðgerð lauk á öðrum tímanum í nótt.
Rafmagnsleysinu fylgdi m.a. röskun á FM-útsendingum útvarps auk þess sem netsamband rofnaði. Dæmi eru um að varaaflstöðvar fjarskiptasenda hafi tæmst, meðal annars á Strútnum ofan við Kalmanstungu.