Ingþór Bergmann er hér búinn að taka niður skiltið sem vísaði viðskiptavinum á tryggingaumboðið. Ljósm. ibþ

TM lokaði umboðsskrifstofu sinni á Akranesi

TM lokaði um áramótin umboðsskrifstofu sinni á Akranesi. Ingþór Bergmann Þórhallsson eigandi Omnis verslunar, og fyrrum umboðsmaður TM á Akranesi, greindi frá þessari ákvörðun tryggingafélagins á gamlársdag. „Þróunin hjá fyrirtækjum af þessu tagi er og verður í þessa átt. Viðskiptavinir eru færðir smám saman í stafræna þjónustu og persónuleg tengsl og velvild víkur fyrir stöðluðum og kerfisbundnum persónuupplýsingum,“ skrifaði Ingþór og bætti við: „Það er margt gott við þessa þróun en það er líka margt slæmt, eins og að loka umboðinu hér á Akranesi. Ég get viðurkennt það núna að maður var búinn að sjá þetta fyrir og átti svo sem von á að þetta gerðist fyrr. En ég er afar þakklátur fyrir þann tíma sem TM var hérna með okkur. Án þeirra aðkomu síðastliðin sex ár væri engin Omnis Verslun,“ sagði Ingþór Bergmann.

TM lokaði umboðsskrifstofu sinni í Borgarnesi fyrir ári. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins eru nú alls sex þjónustuskrifstofur TM reknar á landsbyggðinni. Þar af eru tvær á Snæfellsnesi; í Ólafsvík og Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir