Flugeldasala björgunarfélagsins fór vel af stað

Það var líf og fjör í flugeldasölu Björgunarfélags Akraness við Kalmansvelli 2 síðdegis í dag þegar blaðamaður Skessuhorns var þar á ferðinni. Fjölskyldur voru að kaupa flugelda, stjórnuljós og rótarskot og ljóst að spennu og eftirvæntingar gætti í röðum yngri kynslóðarinnar – og einstaka pabba einnig. Að sögn björgunarsveitarfólks fór salan vel af stað, en hún var opnuð á mánudag. Fólk hefur dreifst ágætlega á söludagana það sem af er, en það er einmitt ákjósanlegast nú þegar ekki mega koma of margir saman í einu. Hægt er að undirbúa kaupin með að skoða úrval söluvarnings á akranes.flugeldar.is þar sem meðal annars má finna myndbönd af flugeldum og panta vörur. Opið verður í flugeldasölunni til klukkan 22 í kvöld og síðan á morgun, gamlársdag til klukkan 16:00.

Á meðfylgjandi mynd er Ásmundur félagi í BA við hinn nýstandsetta Ford 350 bíl sveitarinnar. Bíllinn er með þeim öflugri hér á landi, m.a. á 54 tommu  dekkjum, búinn 6,7L V8 diesel powerstroke mótor og 6 gíra sjálfskiptingu. Hann er nú til taks við útköll við erfiðustu aðstæður. Bíllinn var keyptur til landsins fyrir tveimur árum en nýverið var lokið við breytingar á honum. Sveitin hefur ekki stofnað til skulda vegna kaupa eða breytinga á bílnum og er það ekki síst að þakka velvilja heimafólks í garð björgunarfélagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.