
Bólusetning hafin á hjúkrunarheimilunum
Í dag fá íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum á Vesturlandi bóluefni frá Pfizer. Á Höfða, dvalar- og hjúkrunarheimili á Akranesi, var byrjað að sprauta íbúa í morgun. Fyrst til að vera bólusett var Hulda Haraldsdóttir. Það var Gunnar Bergmann hjúkrunarfræðingur á Höfða sem sá um bólusetninguna. Á myndinni með þeim er einnig Vigdís Björnsdóttir íbúi sem beið spennt eftir að röðin komi að henni.
Annar til að vera bólusettur var svo Haukur Ármannsson. Það var Kristín Guðmundsdóttir hjúkrunardeildarstjóri sem sá um bólusetninguna. Á myndinni með þeim er Tryggvi Björnsson íbúi tilbúinn að fá sína bólusetningu.