
Vestlendingar ársins eru starfsfólk dvalar- og hjúkrunarheimila
Niðurstaða úr vali á Vestlendingi ársins 2020 var lýst í hádeginu í dag við fámenna en góðmenna athöfn í Borgarnesi. Þetta er í 23. skipti sem Skessuhorns gengst fyrir vali á einstaklingi eða hópi í landshlutanum sem þykir hafa skarað framúr á árinu. Lýst var eftir tilnefningum og vann dómnefnd á Skessuhorni úr þeim. Niðurstaðan var afgerandi. Vestlendingar ársins 2020 eru starfsfólk sjö dvalar- og hjúkrunarheimila á Vesturlandi. Þessi stóri hópur fólks á miklar þakkir skildar fyrir frumkvæði, elju og fórnfýsi á árinu við að verja heimilin fyrir kórónaveirunni.
Heimilin eru:
- Brákarhlíð, hjúkrunar- og dvalarheimili í Borgarnesi
- Dvalarheimili aldraðra í Stykkishólmi
- Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól í Grundarfirði
- Dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar í Ólafsvík
- Dvalar- og hjúkrunarheimilið Silfurtún í Búðardal
- Hjúkrunarheimilið Fellsenda í Dölum
- Höfði, hjúkrunar- og dvalarheimili á Akranesi
Skessuhorn færir, fyrir hönd íbúa á Vesturlandi, starfsfólki þessara sjö heimila hamingjuóskir með frábæran árangur á árinu 2020. Jafnframt er táknrænt að í dag hefst bólusetning vegna kórónuveirunnar og á morgun, miðvikudag, verða íbúar allra dvalar- og hjúkrunarheimila í landshlutanum bólusettir.