Íbúar dvalar- og hjúkrunarheimila bólusettir á miðvikudaginn

Fyrsta sending af bóluefni frá Pfizer kom hingað til landsins í morgun. Voru það tíu þúsund skammtar sem duga til bólusetningar fyrir 5000 manns. Á morgun hefst bólusetning forgangshópa sem verða heilbrigðisstarfsmenn í framlínu og íbúar hjúkrunar- og dvalarheimila.

Í dag hefur verið unnið að skipulagningu fyrstu bólusetningar fólks hér á Vesturlandi. Að sögn Rósu Marinósdóttur, sviðsstjóra hjúkrunar á heilsugæslusviði HVE, eru ríflega 300 skammtar væntanlegir á Vesturland. Nokkrir þeirra verða nýttir til bólusetningar heilbrigðisstarfsfólks í framlínunni en að stofni til duga skammtarnir til bólusetningar íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum í landshlutanum. Rósa reiknar með að bólusetningin fari fram á miðvikudaginn, 30. desember og ljúki þá. Þrjú eða fjögur holl heilbrigðisstarfsfólks munu þá fara um landshlutann og heimsækja hjúkrunar- og dvalarheimilin sem í hlut eiga og bólusetja íbúa þar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir