Svipmynd úr veðurmyndavél Vegagerðarinnar á Bröttubrekku klukkan 14 í dag. Þar fór vindhraði í morgun í 50 m/sek.

Norðan hvassviðrið mun ganga niður með kvöldinu

Víða um vestan- og sunnanvert landið hefur verið bálhvasst frá því í morgun. Gul viðvörun er í gildi um allt landið. Björgunarsveitir voru í morgun kallaðar út í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum, en eftir hádegi fóru hjálparbeiðnir að berast af vestanverðu landinu vegna foktjóns. Útkallsbeiðni barst af Kjalarnesi rétt fyrir hádegi vegna þakklæðningar sem var að fjúka af fjárhúsi í Kjós. Nokkrar beiðnir um aðstoð bárust í Reykjavík og voru tvær björgunarsveitir kallaðar út vegna foks á lausamunum og byggingarefni. Skúr fauk á Drangsnesi á Ströndum um klukkan 13 og fór björgunarsveitarfólk á vettvang til að hefta fok á braki úr skúrnum og koma í veg fyrir frekara tjón. Um svipað leiti var óskað eftir aðstoð björgunarsveitarinnar Berserkja vegna foks á lausamunum í Stykkishólmi.

Fáir eru á faraldsfæti ef marka má umferðartölur á vegmælum Vegagerðarinnar, enda slæmt ferðaveður. Mestur var vindur klukkan 10 í morgun á Bröttubrekku þar sem hann fór í 50 m/sek. í hviðum. Þá fór vindur einnig í 45 m/sek á Hraunsmúla í Staðarsveit, 45 m/sek við sunnanvert Akrafjall og 44 m/sek á Kjalarnesi.

Veðurfræðingar spá því að dragi úr vindhraða á vestanverðu landinu síðdegis en hvessir að sama skapa við suðaustanvert landið og þá breytist úrkoman í él. Í kvöld og á morgun ætti veður og færð að vera í lagi hér á Vesturlandi.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir