Safnrekstur af Holtavörðuheiði. Ljósm. úr safni: Guðmundur Steinar Jóhannsson.

Hæstiréttur staðfestir upprekstrarrétt á hluta Króksjarðar

Hæstiréttur hefur kveðið upp dóm sem bindur enda á átta ára gamalt þrætumál milli eiganda jarðarinnar Króks í Norðurárdal annars vegar og Borgarbyggðar hins vegar. Málið snýst um upprekstrarrétt á hluta Króksjarðarinnar. Einnig snerist málatilbúnaður um hvort fjáreigendur í upprekstrarfélagi Þverárréttar gætu rekið fjársafn sitt í gegn um hluta Króksjarðarinnar á haustin á leið til réttar. Hæstiréttur dæmdi Borgarbyggð í vil og staðfesti að viðurkenndur er réttur Borgarbyggðar til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks í Borgarbyggð, landnúmer 134817, sem óþinglýstur samningur Brynjólfs Bjarnasonar og Upprekstrarfélags Þverárréttar frá 26. maí 1924 tekur til. Þá var Borgarbyggð jafnframt sýknuð af gagnkröfu eiganda Króksjarðarinnar um að viðurkennt skuli að sveitarfélaginu sé óheimilt að safna fé á landinu eða reka fé um það á leið til réttar. Hæstiréttur komst að þeirri niður stöðu að málskostnaður skyldi felldur niður á öllum dómstigum.

Fyrir dómnum krafðist Borgarbyggð þess að viðurkenndur yrði réttur bænda til beitarafnota af þeim hluta jarðarinnar Króks sem óþinglýstur samningur frá 1924 hefði tekið til. Ágreiningur málsins snérist annars vegar um hvort Borgarbyggð hefði unnið rétt til beitarafnota fyrir hefð á landinu sem var í eigu Króks og hins vegar hvort og þá með hvaða hætti sveitarfélagið eða aðilum á þess vegum væri heimilt að safna fé sem rynni af fjalli og reka það um land Króks á leið til réttar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að Borgarbyggð hefði sýnt fram á að fjárbændur hefðu í skjóli Upprekstarfélags Þverárréttar og síðar Borgarbyggðar nýtt landið til beitarafnota fyrir fjölda fjár í að minnsta kosti tæpa öld í góðri trú um heimild til þess þótt landið hefði laust fyrir miðja öldina komist úr eigu upprekstrarfélagsins samkvæmt þinglýstum afsölum. Hefði sú nýting landsins átt sér stað allt til dagsins í dag og hefði hefðartíminn þannig löngu verið fullnaður samkvæmt 7. gr. laga nr. 46/1905 er eigandi Króks hófst handa við að véfengja rétt sveitarfélagsins til ítaksins. Hæstiréttur féllst á kröfu Borgarbyggðar um rétt bænda til beitarafnota af umræddu landi og fól sú niðurstaða jafnframt í sér að hafnað væri kröfu eiganda Króks um að sveitarfélagið væri óheimilt að safna fé af fjalli að hausti á þessu sama landi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir