Guðrún Fjeldsted mætir ár hvert í skötuveisluna á Hudastapa. Ljósm. Skessuhorn/hb.

„Alltaf passlega kæst og söltuð“

Guðrún Fjeldsted frá Ölvaldsstöðum í Borgarhreppi er vel kunnug skötuveislunni á Hundastapa og er hún ein þeirra sem passar sig á að taka daginn frá á Þorláksmessu til að mæta í veisluna. Síðustu ellefu ár hefur hún mætt galvösk til Agnesar og Dóra full tilhlökkunar. Veislan verður þó ekki þetta árið, út af „dottlu“. „Þetta er alltaf mikið tilhlökkunarefni allt árið. Stemningin í skötuveislunni er einstök og móttökurnar engu líkar. Þarna hittir maður Dalamenn, unga og aldna, borgfirska bændur auk Egilsættarinnar og fleira áhugavert fólk sem gaman er að spjalla við um lífið og tilveruna á meðan maður ryður í sig skötunni, hamsatólginu, kartöflunum og ekki síst nýbakaða rúgbrauðinu frá húsfreyjunni. Tala nú ekki um Brennivínið sem bætir og kætir! En nú verða aldeilis sorgleg jól hjá mér,” segir Guðrún döpur í bragði þar sem útlit er fyrir að engin skötuveisla verði í ár eins og fyrr segir.

Þekkir hjónin vel

Guðrún hefur þekkt húsfreyjuna á Hundastapa, hana Agnesi, alveg frá því hún var í skóla með syni hennar Sigga í barnskóla á Varmalandi. „Dóri og Siggi hafa verið vinir í gegnum árin, báðir miklir áhugamenn um tæki og bíla. Það er alltaf gaman þegar Dóri og strákarnir koma í heimsókn. Þá fara fram líflegar umræður um nýjustu traktora, vörubíla og rútur. Þá eru ekki síðri umræður heldur en þegar hestamenn ræða sín mál,“ bætir hún við en Guðrún rekur meðal annars reiðskóla á bænum sínum fyrir börn og unglinga yfir sumartímann. „Núna verður maður að láta sig dreyma um að komast í skötuveislu á næsta ári og ylja sér við gamlar minningar frá fyrri veislum.“

Minnir á skerpikjötveislu

Skötuveislan á Hundastapa er orðin að rótgróinni hefð hjá Guðrúnu og hennar fólki og er árið nánast skipulagt í kringum þennan árlega viðburð. „Þetta er orðinn fastur punktur hjá minni fjölskyldu. Þessi hefð minnir mig mikið á skerpikjötveislur sem ég hef upplifað í Færeyjum. Þvílík er gestrisnin á Hundastaða enda er húsfreyjan hálf færeysk,“ segir Guðrún og blaðamaður forvitnast umhvort einhver veislan hafi staðið upp úr frekar en aðrar. „Fyrsta skiptið sem ég fór í skötuveisluna þá hreinlega borðaði ég yfir mig og var á leiðinni heim. Þá bar Agnes fram þvílíkar hnallþórur. Það var ekki hægt að neita að smakka þær! Ég var varla búin að jafna mig á yfiráti á aðfangadag,“ segir hún létt í lund. Guðrún gefur skötunni hjá Agnesi og Dóra hæstu mögulegu einkunn. „Alltaf passlega kæst og söltuð. Ekki spillir að hafa nýbakað rúgbrauð eftir Agnesi og smjöri,“ segir hún dreymin að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir