Undir viljayfirlýsinguna rituðu f.v. Hermann Jónasson forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og Soffía Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Leigufélagsins Bríetar ehf. Fyrir aftan standa fulltrúar úr sveitarstjórn Akraneskaupstaðar, þau Einar Brandsson, Elsa Lára Arnardóttir og Valgarður L Jónsson. Ljósm. Skessuhorn/mm

Skrifað undir viljayfirlýsingu um átak í húsnæðismálum

Í morgun var í Frístundamiðstöðinni Garðavöllum á Akranesi skrifað undir viljayfirlýsingu milli Akraneskaupstaðar, félagsmálaráðuneytisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Leigufélagsins Bríetar efh. Samkomulag þetta er fjölþætt en markmið þessa tilraunaverkefnis er m.a. að stefna að fjölgun íbúða á Akranesi, eflingu stafrænnar stjórnsýslu og upplýsingagátta hjá Akraneskaupstað. Í yfirlýsingu segir um markmið verkefnisins: „Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Leigufélagið Bríet og Akraneskaupstaður lýsa yfir vilja sínum til að vinna saman að tilraunaverkefni á Akranesi.” Markmið verkefnisins eru að stuðla að auknu húsnæðisöryggi leigjenda með því að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp í húsnæðismálum hvað varðar fyrirsjáanlegan skort á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu. Greina á samspil húsnæðiskostnaðar og almenningssamgangna á vaxtarsvæðinu, efla stafræna stjórnsýslu húsnæðis- og byggingarmála í sveitarfélaginu og auka skilvirkni í skipulagsmálum. Litið er á Akranes sem tilraunasveitarfélag á þessum sviðum en afraksturinn megi nýta til að bæta húsnæðismál víðsvegar um landið.

Þá segir í samningnum að verkefnið muni stuðla að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í samræmi við húsnæðisþörf sem metin er í húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar. Í áætluninni kemur m.a. fram að að töluverð þörf sé fyrir aukið framboð af leiguhúsnæði á Akranesi fyrir mismunandi félagshópa. Á það við um leiguíbúðir á almennum markaði, félagslegt leiguhúsnæði, leiguhúsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur undir tekju- og eignamörkum auk þess fyrir fatlað fólk og aldraða. Þá mun verkefnið verða til þess að varpa frekara ljósi á raunhúsnæðiskostnað þeirra sem búa á vaxtarsvæðum en stunda vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Með verkefninu verður Akraneskaupstaður einn af brautryðjendum rafrænna húsnæðisáætlana, vinnur með HMS að markvissri notkun rafrænnar stjórnsýslu byggingarmála með Byggingargátt og mun stuðla að bættum upplýsingum um leigumarkaðinn með því að vinna undirbúningsvinnu með HMS að rafrænni skráningu leigusamninga.

Í viljayfirlýsingunni kemur auk þess fram að auka eigi uppbyggingu íbúða á Akranesi. Bríet mun taka þátt í fyrirhugaðri uppbyggingu á allt að 48 íbúðum á Akranesi sem skipt verður í áfanga. Skuldbindur Bríet sig til kaupa á allt að átta leiguíbúðum. Stefnt er að þátttöku iðnaðarmanna í sveitarfélaginu við þessa uppbyggingu. Þá mun HMS og Akraneskaupstaður veita stofnframlög til byggingar á allt að 24 almennum íbúðum fyrir fólk undir tekju- og eignamörkum og allt að 34 íbúðum fyrir aldraða þar sem Akraneskaupstaður tryggir aðgengi að hentugum lóðum. Þá mun Akraneskaupstaður vinna að fjölgun íbúða fyrir fatlaða á næstu árum, allt að 15 íbúðir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir