Sigríður Eiríksdóttir

„Mikilvægt öllum að taka þátt í félagsstarfi og rækta góð vinasambönd“

„Ég hef alltaf verið mjög félagslynd. Ég mætti á minn fyrsta skátafund níu ára gömul fyrir tilstilli Fríðu frænku, eða Málfríðar Þorvaldsdóttur föðursystur minnar, sem var skátaforingi í Skátafélagi Akraness til fjölda ára,“ segir Sigríður Eiríksdóttir í samtali við Skessuhorn. Hún hefur ásamt því að vera virk í félagsmálum lagt ýmsum góðum málum lið, eins og Hollvinasamtökum Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, í gegnum tíðina auk þess að starfa í Félagi eldri borgara á Akranesi. Hún var í hópi fyrstu skiptinema sem fór til Bandaríkjanna frá Íslandi og kynntist þar meðal annars lífi Amish fólks í Pennsylvaníu, sem er grein af trúarhreyfingu mannonita sem stunda landbúnað og lifa einföldu lífi og klæðast fatnaði sem fólk klæddist í Evrópu á 17. og 18 öld. Hún rak ásamt eiginmanni sínum fyrirtækið Vignir G. Jónsson ehf. sem er öflugt fyrirtæki í lagmeti og eitt farsælasta fyrirtæki landsins í hrognavinnslu. Sigríður hefur haft ánægju af að ferðast og segir okkur í stuttu spjalli frá sínum áhugaverðustu stöðum sem hún hefur komið til.

Virk í skátum

„Ég hef allar götur síðan ég var níu ára starfað innan Skátafélags Akraness en þó með hléum því ég bjó erlendis um tíma og fór út sem skiptinemi í eitt ár. En í dag er ég virk í starfi Svannasveitarinnar, sem er félagsskapur eldri skáta á Akranesi, en þar eru um 90 konur starfandi í góðum félagsskap. Skátastarfið hefur alla tíð gefið mér mjög mikið og margar dýrmætar minningar úr starfinu og frá skátamótum víðs vegar um landið að ógleymdum Botnsdalsmótunum sem Skátafélag Akraness hélt inn í Hvalfirði um árabil. „Ég hef verið svo heppin að að hafa létta lund og það hefur verið mér farsælt í gegnum lífið. „Sól úti, sól inni, sól í hjarta og sól í sinni,“ syngjum við oft saman á skátafundum. Hugsa ég oft um þessar ljóðlínur úr þessum kveðskap þegar ég hef átt skemmtilegar stundir í félagsstarfi og getað látið gott af mér leiða á öðrum vettvangi. Þrátt fyrir allt eru það við sjálf sem gerum okkur hamingjusöm og að læra að njóta líðandi stundar. Það er undir okkur sjálfum komið hvernig við tökum á þeim verkefnum og uppákomum sem verða á vegi okkar. Þess vegna tel ég svo mikilvægt öllum að taka þátt í félagsstarfi sem fellur að hverjum og einum og dreg ekki úr mikilvægi þess að rækta góð vinasambönd.“

Nánar er rætt við Sigríði í jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir