Ríkið stefnir að sölu Íslandsbanka á næsta ári

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefur fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á skilgreindum eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, en ríkið á bankann nú að öllu leyti. Í því felst að ráðherra útbýr nú greinargerð sem lögð verður fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, auk þess að óska umsagnar Seðlabanka Íslands í samræmi við ákvæði laga. Að liðnum umsagnarfresti tekur ráðherra endanlega ákvörðun um hvort sölumeðferð skuli hafin, en miðað er við að honum ljúki um 20. janúar nk. Stefnt er að því að selja hlutina í almennu útboði og skrá öll hlutabréf í bankanum í kjölfarið á skipulegan verðbréfamarkað á Íslandi. Áformin eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu kemur fram að helstu markmið með sölu ríkisins á hlutum þess í bankanum séu að minnka áhættu ríkisins af svo stórum eignarhlut í fjármálakerfinu; að efla virka samkeppni á fjármálamarkaði; að hámarka endurheimtur ríkissjóðs af eignarhaldinu og sölu á hlutum; að stuðla að fjölbreyttu, heilbrigðu og dreifðu eignarhaldi til lengri tíma; að auka fjárfestingarmöguleika fyrir innlenda einstaklinga og fagfjárfesta; og ekki síst að minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslega arðbærra fjárfestinga.

Eigið fé Íslandsbanka er nú metið á um 182 milljarða króna en í minnisblaði Bankasýslu ríkisins er lagt til að tekin verði ákvörðun um stærð hlutarins sem boðinn verður til sölu á síðari stigum söluferlis, með hliðsjón af áætlaðri eftirspurn. Stefnt er að því að útboð geti farið fram á vormánuðum, en málið hefur fengið ítarlega umfjöllun í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar fyrir helgi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir