Guðrún Lilja Magnúsdóttir og Gunnar Jökull Karlsson á heimili sínu í Grundarfirði

„Grundfirðingar taka vel á móti nýjum íbúum“

Það má kannski segja að þau hafi verið nokkrir flakkarar í sér, hjónin Guðrún Lilja Magnúsdóttir og Gunnar Jökull Karlsson í Grundarfirði. Áður en þau settust að í bænum höfðu þau búið á Selfossi, Danmörku, Bifröst og aftur á Selfossi. En þeim finnst gott að búa í Grundarfirði sem þau segja að tekið hafi vel á móti sér og sínum en samtals eiga þau fimm börn, þrjá ketti og einn hund. Tekið var hús á þeim hjónum sem þrátt fyrir annir við málningarvinnu í eldhúsinu, gáfu sér tíma til að ræða fjölbreytt líf og skemmtilega tilveru.

Nám og ævintýramennska
Við hefjum samtalið á árinu 2010 þegar þau hjón rugla saman reitum og fara að búa saman á Selfossi en ákveða síðan að taka vinkilbeygju og fara til náms eða starfa í Danmörku og þar með að prófa að búa í útlöndum. Þau höfðu kynnt sér málin, komin með húsnæði og vitneskju um að Danir væru ekkert sérstaklega harðir á því að nemendur væru með stúdentspróf, en annað kom á daginn segir Guðrún Lilja. „Það hafði kitlað okkur að prófa að búa í öðru landi, en þegar við komum út var orðin breytt staða. Meiri aðsókn var í nám en fyrr svo reglurnar höfðu verið hertar. Og þeir skólar sem við hefðum getað innritast í buðu upp á nám sem við hefðum ekki fengið metið hér heima. Við fórum því bara að vinna sem líka var allt í lagi. En dvölin varð styttri en við ætluðum í upphafi. Pabbi lést í september þetta ár og mér fannst gríðarlega erfitt að vera ekki heima með mömmu þegar áfallið dundi yfir. Börnin voru ekki heldur alveg sátt þannig að dvölin í Danmörku varð endaslepp, við bjuggum þar aðeins í ár. Hins vegar komumst við inn í Háskólagáttina í Bifröst árið eftir og fluttum þangað í því augnamiði að mennta okkur, sem við og gerðum.“

Nánar er rætt við Guðrúnu og Gunnar í jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir