Brynjólfur Guðmundsson

Sólarhringurinn mætti að sönnu vera lengri

Hann virðist þurfa að sofa skemur en aðrir og viðurkennir raunar að svo sé. Kemur ótrúlega mörgu í verk á hverjum sólarhring, hvar sem hann ber niður. Segir að handhægt gæti verið að hafa eiginleika skógarbjarna, leggjast í híði í nokkra mánuði og geta svo bara vakað hina. Hann hafi aldrei átt erfitt með að sofna í tíu mínútur, ef þess hefur þurft, en veit ekki hvernig hann stillir klukkuna, svo svefninn verði ekki lengri. Sveitungarnir segja að hann eigi ekki nei í sinni orðabók, enda er hann með eindæmum bóngóður maður. Sest er í eldhúsið í Hlöðutúni í Stafholtstungum og raktar garnirnar úr Brynjólfi Guðmundssyni, þúsundþjalasmið, sem þar býr ásamt konu sinni, Sæunni Elfu Sverrisdóttur. Þau eiga saman fjögur börn og fjögur barnabörn og það fimmta á leiðinni.

Skólaganga
Brynjólfur er fæddur og uppalinn í Hlöðutúni og sótti grunnskólanám sitt að Varmalandi, hvar hann var í átta vetur, þar af sjö í heimavist og einn í heimankeyrslu. „Það vildi þannig til að þegar ég var í öðrum bekk var skólinn sprunginn og ákveðið að létta á honum á þann hátt að við sem bjuggum við svokallaðan Borgarhreppslegg vorum keyrð heim daglega. Það var sem sagt heimavistin sem var sprungin. Inn í hvert herbergi voru komnir 5-6 nemendur en þau báru í raun bara fjóra. Þann vetur þrammaði maður hér niður afleggjarann í veg fyrir skólabílinn dag hvern, og var svo keyrður heim að afleggjara að skóla loknum. Þess utan var ég í heimavistinni og líkaði það bara ágætlega. Ég var heppinn með herbergisfélaga sem voru þeir sömu alla mína tíð í skólanum. Þegar horft er til baka, tel ég að mikil kennsla hafi átt sér stað, því við byrjuðum kl. 8.30 og vorum að til kl. 16 á daginn. Síðan var útitími í klukkustund og svo lesstund þar á eftir. Það var reynt að sjá til þess að allir myndu læra fyrir næsta dag. Við byrjuðum reyndar fremur seint í skólanum á hverju hausti, svona mánaðarmótin sept-okt, og vorum til viku af maí, svo það var mikið áframhald á meðan á skóla stóð. Á kvöldin var einskonar félagsmálakennsla og tómstundir. Elstu bekkirnir máttu mæta á ungmennafélagsfundi og til þess að sleppa við að fara að sofa og fá betra með kaffinu mættu krakkarnir vel,“ segir Brynjólfur kíminn og heldur áfram. „Þar fékk maður fyrstu kennsluna í að halda ræðu sem dæmi og það var alltaf einn úr elstu bekkjunum settur þar í stjórn. Fólk hefur búið að þessu. Með stjórnarsetunni lærðist það t.d. að skrifa fundargerð nú eða sinna gjaldkerastörfum og jafnvel að vera formaður. Svo þetta var hið besta mál.“ Að loknum skólanum í Varmalandi fór Brynjólfur einn vetur í Reykjaskóla í Hrútafirði. Þar var líka heimavist en lítið farið heim nema í jóla- og páskafrí því þetta var býsna langt á þessum árum. „Ég varð að taka eitthvert próf til að komast áfram í skóla, og ég kaus að fara þangað sem mér fannst gott. Það kynntist ég Húnvetningum, en hefði kannski frekar náð að kynnast Borgfirðingum ef ég hefði farið í Reykholt, sem í sjálfu sér var einnig gott, en ég kaus þetta.“

Nánar er rætt við Brynjólf í jólablaði Skessuhorns.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir