Sara Björg Bjarnadóttir

Slysið sem breytti öllu

Blaðamaður mætir á snyrtistofuna Flikk, ekki til að láta flikka upp á sig að þessu sinni, heldur til spjalla við við Söru Björg Bjarnadóttur, snyrtifræðing og listamann. Hún stofnandi og er eigandi snyrtistofunnar og rekur hana í dag með bestu vinkonu sinni. Sara Björg á kannski ekki langt að sækja listræna hæfileika en faðir hennar er Bjarni Þór Bjarnason listamaður á Akranesi. Viðmótið er hlýtt þegar hún tekur á móti blaðamanni. Þegar gott kaffi er komið í bollann er hægt að hefja spjallið um lífið, listina og ekki síst slysið sem olli straumhvörfum í lífi hennar.

Harmleikur í fjölskyldunni

Sara Björg er ættleidd frá Sri Lanka af foreldrum sínum Ingibjörgu Njálsdóttur, sem alltaf var kölluð Imba, og Bjarna Þór Bjarnasyni listamanni. „Ég er alin upp hér á Akranesi og hef verið hérna alla mína ævi, svona að mestu alla vega,“ segir Sara Björg brosandi í upphafi máls. „Foreldrar mínir áttu bæði börn fyrir þegar þau kynnast, rugla saman reitum og fara að búa saman. En af því að mamma var með meðfæddan hjartagalla var henni ráðlagt að eignast ekki fleiri börn. Þau ákváðu því að ættleiða eitt barn og það er ég,“segir Sara Björg. „Mamma deyr þegar ég er átta ára gömul. Hún hafði ekki verið neitt meira veik veturinn áður en hún lést, en varð samt bráðkvödd. Það var auðvitað gríðarlegt áfall að missa móður sína svona ungur og ég vann líklega ekki úr því að gagni fyrr en miklu síðar. En pabbi er mikil perla, mikið betri en enginn. Við erum mjög náin og höfum brallað ýmislegt saman. Við vorum ein í eitt ár. Þá kynnist hann annarri konu, Ástu Salbjörgu Alfreðsdóttur, og þau búa saman í dag.“

Besti pabbi í heimi

„Eftir fráfall mömmu, upplifði ég okkur pabba bara tvö ein í heiminum. Við fengum enga hjálp og þurftum bara að treysta hvort á annað, en hann er frábær pabbi, hefur gert svo margt fyrir mig. Gefið mér ómældan tíma og þolinmæði, sem ég mun aldrei gleyma,“ segir Sara Björg og það kemur ljúft blik í augun. „Við gerðum svo margt,“ heldur hún áfram. „Við vinkonurnar vorum með algjört „Spice girls“ æði á þessum tíma og hann fór með okkur út um allan bæ til að hjálpa okkur við að taka myndir og æfa okkur. Leigði salinn í skólanum til að þetta væri nú almennilegt. Tók síðan allt upp svo við gætum fínpússað sporin. Við tróðum síðan upp á bekkjarkvöldum, við misgóðar undirtektir. Það voru allir að verða brjálaðir á okkur,“ og Sara Björg skellihlær. „Einu sinni sátum við feðgin heima og leiddist. Þá fékk hann þá hugmynd að taka sófaskemilinn í sundur og búa til svampakarla úr honum. Hver gerir bara svona?“ Og Sara Björg brosir að þessari góðu minningu. „Þetta var ótrúlegt en samt svo geggjað. Ég get talið upp milljón svona atriði sem við gerðum. Hann er alltaf að gefa mér af sér. Einu sinni bauð hann okkur í páskaeggja ratleik, sem dreifðist út um bæinn og endaði síðan í garðinum hjá honum. Þar átti að kippa i spotta og „púff“ páskaegg svifu niður af þakinu. Hann er alveg ótrúlega magnaður maður.“

Nánar er rætt við Söru í jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir