Sóley kemur hlaupandi niður í Þórsmörk. Ljósm. úr einkasafni

Segir tilfinninguna sem hún finnur á hálendinu ólýsanlega

Sóley Birna Baldursdóttir ólst upp í Múlakoti í Lundarreykjadal í Borgarfiði. Hún er í dag búsett ásamt níu ára syni sínum á Hvanneyri. Sóley er með BA gráðu í mannfræði og er langt komin með viðbótardiplóma í kynfræði auk þess sem hún er að byrja í mastersnámi í lýðheilsuvísindum á nýju ári. Meistaranám í lýðheilsuvísindum er fjölbreytt og hagnýtt nám þar sem áhersla er lögð á undirstöðuþekkingu á áhrifavöldum heilbrigðis, forvörnum og heilsueflandi aðgerðum. Nemendur fá hagnýta þekkingu í framkvæmd heilbrigðisrannsókna og útfærslu forvarnaraðgerða. Sóley starfar í dag tímabundið hjá Borgarbyggð í hinum ýmsu verkefnum þar á meðal aðgerðaáætlun í kynfræðslu fyrir kennara í skólum sveitarfélagsins. „Við erum tvær saman að vinna að þessari áætlun sem svo verður send á skólastjórnendur sem svo ráða hvað þeir gera með þetta hjálpartæki. Við erum að setja upp leiðbeiningar um hvað sé viðeigandi fræðsla fyrir hvern aldurshóp og hvaða efni kennarar geti stuðst við hverju sinni,“ útskýrir Sóley þegar blaðamaður Skessuhorns spjallaði við hana um fjallamennsku, kynfræðinámið og áform hennar að námi loknu.

Fjöllin hafa alltaf togað

Í frítíma sínum gengur Sóley um hálendi Íslands og stefnir á að fara út í heim og ganga líka á fjöll þar. „Fjöllin hafa dregið mig að sér síðan ég man eftir mér. Ég man eftir því að sitja í bíl sem barn og horfa á fjöllin út um gluggann og ég fann bara hvað þau toguðu í mig. Ég get samt ekki útskýrt hvað það er sem togaði svona í mig en ætli það hafi ekki upphaflega verið þetta óþekkta við fjöllin,“ segir Sóley og bætir við að hún hafi líklega verið um fimm ára þegar hún fór fyrst í litla fjallgöngu. „Það hefur verið þegar ég fór með mömmu og ömmu í berjamó í múlanum heima. Svo þegar ég var 11 ára fór ég í leitir með pabba þar sem riðið er inn á afrétt að smala. Ég man svo vel tilfinninguna þegar ég var komin í fyrsta skipti inn á afrétt á hesti umkringd fjöllum, alein í náttúrunni. Svo seinna meir þegar við fórum ríðandi yfir Kjöl á þrettánda ári. Mér hefur alltaf þótt þetta svo magnað, að vera inni á milli fjalla í þessum frið sem maður finnur þar og með alla þessa orku frá náttúrunni,“ segir Sóley.

Nánar er rætt við Sóleyju í jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir