Hér er búið að ná vélinni niður af jöklinum og koma henni á kerru. Ljósm. úr einkasafni.

Mest gaman að gera það sem búið var að segja að væri ekki hægt

Skömmu fyrir hádegi fimmtudaginn 21. júní 1984 brotlenti flugvél á Eiríksjökli með tveimur mönnum innanborðs. Mennirnir voru breskir, búsettir í London, og komu til Íslands á miðvikudagskvöldinu og ætluðu að dvelja hér í fjóra daga. Þeir voru á leið til Grímseyjar til að sjá miðnætursólina á sumarsólstöðum þegar slysið varð. Þegar þeir komu ekki á áfangastað rétt eftir hádegi hófst leit. Það var svo klukkan 01:43 næstu nótt sem sást fyrst til vélarinnar og fyrstu björgunarsveitamenn komu að flakinu rétt fyrir klukkan fimm um morguninn. Kom þá í ljós að mennirnir tveir voru enn á lífi. Þyrla varnarliðsins var kölluð á staðinn og sótti hún mennina mikið slasaða og flutti á Borgarspítalann í Reykjavík.

Ekki þörf fyrir karla á gúmmístígvélum í leit

Blaðamaður Skessuhorns heimsótti Snorra Jóhannesson á Augastöðum í Hálsasveit og fékk að heyra frásögn af því þegar hann fór með sveitungum sínum, Snorra frá Sturlureykjum, Hrefnu Sigmarsdóttur og bræðrunum Bergþóri, Þorsteini og Þórði á Húsafelli, upp á Eiríksjökul að ná í flugvélarflakið. „Raunveruleg byrjun á þessu máli er samt leitin að flugvélinni og mönnunum. Við félagar úr Björgunarsveitinni Oki vorum kallaðir út þegar byrjað var að leita að vélinni. Það var skítaveður og ábyggilega snjókoma á jöklinum en hann sást illa. Þegar búið var að finna vélina ákváðum við Steini á Húsafelli að fljúga yfir jökulinn og þá sáum við hana líka. Við sáum að búið var að taka björgunarbát og breiða fyrir rúðurnar sem höfðu brotnað. Þá vorum við vissir um að allavega annar maðurinn hefði lifað af, dauðir menn breiða ekki fyrir glugga,“ segir Snorri. Eftir að búið var að finna vélina fóru hlutirnir að gerast hratt. „Við Steini fórum upp í Strút að sækja endurvarpa en mættum þar flugbjörgunarsveitinni og var okkur tjáð að engin þörf væri fyrir aðstoð frá sveitakörlum í gúmmístígvélum svo við fórum bara heim,“ segir Snorri.

Nánar er rætt við Snorra í jólablaði Skessuhorns.

Líkar þetta

Fleiri fréttir