Dúi Landmark

Ísbjörninn var svo nálægt að ég fann lyktina úr munninum á honum

Dúi Landmark er fæddur á Akranesi árið 1965. Hann var ekki hár í loftinu þegar hann komst í kynni við myndavél og síðan hefur hann varla lagt hana frá sér og liggur mikið magn ljósmynda eftir hann sem m.a. má finna á Ljósmyndasafni Akraness auk þess sem hann hefur nýlega opnað vefsíðuna www.dui.is þar sem má finna mikið af nýrri myndum. Dúi lærði ljósmyndun og kvikmyndagerð 1986-1990 í París og hefur síðan fengist við sjónvarpsmyndaframleiðslu, ljósmyndun og leiðsögn á Íslandi og Grænlandi. Hann hefur einnig um langt árabil unnið við kvikmynda- og sjónvarpsmyndaframleiðslu og farið víða um heim í efnisöflun. Þar má nefna Rússland, Mongólíu, Afríkulönd og nú síðast hefur leiðin legið alloft til Grænlands. Þá hefur Dúi stundað ýmsa veiðimennsku; stangveiði og skotveiði og var um tíma formaður Skotveiðifélags Íslands. Dúi rekur ferðaþjónustufyrirtæki þar sem hann hefur samtvinnað þessi áhugamál sín og gert að atvinnu.

Næstum étinn af ísbirni

Í ferð til Grænlands sem Dúi fór í á dögunum komst Dúi í meira návígi við ísbjörn en þægilegt getur talist. Hann var þá ásamt grænlenskum vinum sínum á litlum opnum báti þegar þeir koma auga á björninn. Hinir grænlensku vinir sigldu litla bátnum ansi nálægt birninum sem var ekki par ánægður með það, heldur fýkur í bangsa. Ísbirnir eru afar snarir í snúningum og þessi björn var engin undantekning. Ísbjörninn lagði til atlögu við þá félaga á bátnum en bátsverjum tókst lipurlega að forðast björninn en þó það naumlega að Dúi fann hreinlega lyktina út úr munninum á bangsa. Grænlendingarnir kipptu sér þó ekki upp við þetta heldur hreinlega skríktu af kátínu.

Nánar er rætt við Dúa í jólablaði Skessuhorns.

Ísbjörninn gæti allt eins verið að hugsa: „Ég næ ykkur næst.“ Ljósm. Dúi Landmark

Líkar þetta

Fleiri fréttir