Starfshópur skipaður um eflingu kynfræðslu

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur skipað starfshóp um eflingu kynfræðslu í skólum. „Í kjölfar umræðu í samfélaginu og ábendinga frá nemendum boðaði ráðherra til fundar á dögunum með aðilum sem hafa með virkum hætti látið sig málefnið varða,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. Starfshópurinn á að koma með tillögur að aðgerðum sem fyrst. Hann mun starfa út maí á næsta ári og mun hann skila áfangaskýrslu með kostnaðarmetnum og tímasettum aðgerðartillögum í lok febrúar.

Starfshópnum er m.a. falið að gera tillögu að framkvæmd kennslu í kynfræðslu og ofbeldisforvörnum á grunn- og framhaldsskólastigi. Þá skal hann láta vinna stöðukönnun á framkvæmd kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum þar sem m.a. komi fram viðhorf skólastjórnenda, nemenda og kennara. Taka skal afstöðu til hvort og þá hvaða breytingar þurfi að gera á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla, á inntaki kennaramenntunar, hlutverki skólahjúkrunarfræðinga, námsráðgjafa og tómstundafræðinga til að kynfræðsla á þessum skólastigum verði með fullnægjandi hætti. Loks skal hann gera tillögur um með hvaða hætti best sé að miðla fræðslu um kynlíf og kynheilbrigði. Formaður starfshópsins er Sólborg Guðbrandsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir