Rótarýklúbbur Borgarness styrkir Píetasamtökin

Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. „Rótarýklúbbur Borgarness telur að forvarnarstarf sé mikilvægt og mikill ávinningur ef hægt er að bjarga mannslífum. Einnig er hjá Píeta unnið gott starf þar sem unnið er að því að hlúa að eftirlifendum. Rótarý klúbburinn í Borgarnesi afhenti í vikunni Píetasamtökunum styrk að upphæð 200.000 krónur,“ segir í tilkynningu.

„Styrkurinn kemur sér einstaklega vel þar sem aðsókn í þjónustu samtakanna eykst stöðugt. Tæplega 500 viðtöl voru veitt í húsi Píeta í nóvember þetta árið. Samtökin eru alfarið rekin af styrkjum þar sem öll okkar þjónusta er gjaldfrjáls. Til okkar geta leitað allir sem glíma við sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra. Hjá okkur starfa sálfræðingar, félagsráðgjafar, iðjuþjálfar og læknar. Við veitum meðferð og stuðning og leitumst við að vera til staðar, alltaf. Samtökin eru afar þakklát fyrir þennan styrk,“ segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta.

Píeta samtökin eru sjálfsvígs- og sjálfskaða forvarnarsamtök staðsett að Baldursgötu 7 í Reykjavík. Boðið er upp á viðtöl hjá fagmenntuðu heilbrigðisstarfsfólki fyrir 18 ára og eldri sem eru með sjálfsvígshugsanir og/eða sjálfsskaðavanda.  Einnig er boðið upp á viðtöl og stuðningshópa fyrir aðstandendur. Öll þjónusta samtakanna er endurgjaldslaus, en vert er að benda á að Píeta síminn 552-2218 er opinn allan sólarhringinn. Vefsíða samtakanna er www.pieta.is, en Píeta samtökin eru einnig á Instagram og Facebook undir notendanafninu @pietasamtökin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir