Jólasveinarnir Lunguslettir og Næpuskræfa. Ljósm. Brimrún Vilbergsdóttir

Jólasveinarnir alveg í rusli

Jólasveinarnir tínast nú til byggða einn af öðrum. Kunnastir eru þeir þrettán sem koma einn af öðrum til byggða eftir því sem líður á jólamánuðinn og færa börnum góðgæti og fleira í skóinn. Færri vita að jólasveinarnir eru mun fleiri, svo margir að enginn veit raunverulegan fjölda þeirra. Raunar voru á árum áður alls kyns furðuverur á ferli í jólamánuðinum en í seinni tíð hefur þeim fækkað og í dag eru jólasveinarnir nær einráðir jólavætta.

Íslensku jólasveinarnir eru jólavættir af tröllakyni og voru upphaflega hafðir til að hræða börn dagana fyrir jól til þess að vera prúð og stillt og hegða sér vel. Áður voru þeir taldir tröllum líkir, klofnir upp í háls, með klær fyrir fingrum, kringlótta fætur og engar tær. Þeir voru sagðir illir að eðlisfari og líkastir púkum og lifa mest á blótsyrðum manna og óvönduðum munnsöfnuði. Þeir voru sagðir rógsamir og rángjarnir, einkum á börn.

Með tímanum milduðust sveinarnir, þeir verða vinir barnanna, færa þeim gjafir, syngja fyrir þau og segja sögur sem þeir hefðu aldrei gert hér áður fyrr. Þá hafa jólasveinar látið sig varða ýmis þjóðþrifamál í seinni tíð, svo sem umhverfismál og endurvinnslu. Á Akranesi hafa tveir jólasveinar, Lunguslettir og Næpuskræfa, verið bæjarbúum til ráðgjafar og aðstoðar við sorphirðu á Akranesi. Hefur verið almenn ánægja með framlag þeirra til málaflokksins og er fyrirhugað að gera við þá langtímasamning til fimmhundruð ára um sorphirðu og endurvinnslu í bænum í desember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir