Prestarnir þrír slá í gegn

Prestarnir þrír hafa slegið algerlega í gegn með myndbandi sem gert var fyrir verkefnið Aðventudagatal Akraness – „Skaginn syngur inn jólin.“ Myndbandið birtist á Facebook síðu verkefnisins auk þess sem það birtist á Youtube. Í myndbandinu flytja sérarnir Jónína Ólafsdóttir, Þóra Björg Sigurðardóttir og Þráinn Haraldsson, sóknarprestar í Garða- og Saurbæjarprestakalli lagið „Beðið eftir Jesúsi“ eftir Baggalút. Myndbandið var fyrst birt 11. desember og hefur þegar þetta er ritað verið deilt 240 sinnum, rúmlega 27.000 hafa horft á það og „like-in“ eru orðin rúmlega 7.300. Athugasemdir hafa verið mjög jákvæðar við flutning þeirra á laginu og meðal annars hafa verið dæmi um yfirlýsingar frá fólki sem sagst hefur vilja flytja á Akranes eftir að hafa séð og heyrt lagið.

Það eru Hlédís Sveinsdóttir og Heiðar Mar Björnsson ásamt Ólafi Páli Gunnarssyni sem standa að verkefninu Aðventudagatal Akraness – „Skaginn syngur inn jólin.“ Um er að ræða tuttugu og fjögur söngatriði sem flutt eru af Akurnesingum nær og fjær. Einn gluggi er opnaður alla morgna frá 1. til 24. desember og eins og í öðrum jóladagatölum hvílir leynd yfir því hvað birtist í gluggunum þar til þeir eru opnaðir.

Hlekk á lagið má finna hér fyrir neðan:

Líkar þetta

Fleiri fréttir