Olla tekur hér við heiðursviðurkenningu Bændasamtakanna. Skjáskot af vefútsendingu frá fagráðstefnunni.

Olla í Nýja Bæ hlýtur heiðursverðlaun hrossabænda

Ráðstefna fagráðs í hrossarækt var haldin í gær. Þar var farið yfir árangur íslenskra hrossa og ræktenda þeirra á árinu. Ræktunarbú ársins reyndist vera Þúfur í Skagafirði; bú þeirra Gísla Gíslasonar og Mette Mannseth. Heiðursviðurkenningu Bændasamtakanna og Félags hrossabænda hlaut hins vegar kjarnorkukonan Ólöf Kolbún Guðbrandsdóttir, Olla í Nýjabæ í Bæjarsveit. Verðlaunin hlýtur jafnan eldri einstaklingur sem lagt hefur drjúgan skerf inn í ræktun íslenska hestsins á æviskeiði sínu. Farið var hlýjum orðum um gæfuríkt ævi- og ræktunarstarf Ollu í Nýjabæ í kynningunni á ráðstefnunni og sagt meðal annars að Olla væri fallegt dæmi um manneskju sem alist hefði upp við hestamennsku frá blautu barnsbeini, stundað ræktunarstarf af alúð og uppskorið í samræmi við það. Sjálf segir hún orðið „kona“ vera ofnotað og vísar þar til jafnréttis kynjanna. Í viðtali sem birtist í Skessuhorni fyrir 14 árum sagði Olla í samtali við blaðamann: „Fyrir alllöngu var hér við tamningar yndisleg stúlka sem nú er búsett í Bandaríkjunum. Hún gaf mér einhverju sinni lítinn platta með þessari áletrun: „Það er erfitt að vera kona, maður verður að hugsa eins og karlmaður, haga sér sem dama, líta út eins og ung stúlka – og þræla eins og hestur.“ Þetta finnst mér eiga ágætlega við mig,“ sagði Olla.

Við afhendingu verðlaunanna og kynningu fagráðsins á Ollu var nokkrum sinnum vitnað í viðtal sem Ófeigur Gestsson þáverandi freelans – blaðamaður á Skessuhorni tók við Ollu í Nýjabæ og birtist í blaðinu í október 2006.  Í tilefni þeirrar viðurkenningar sem Ollu nú hlotnast er hér að neðan birt viðtalið úr Skessuhorni frá 2006 í heild sinni:

 

Það var allt skemmtilegt – en mest gaman að dansa

  • Rætt við kjarnorkukonuna Ollu í Nýjabæ um ævi og störf

Á jörðinni Bæ í Bæjarsveit í Borgarfirði hefur verið búseta frá því á landnámsöld. Árið 1929 keypti bræðurnir Guðbrandur og Júlíus Þórmundssynir jörðina með föður sínum og var henni þá skipt í Nýjabæ, Laugabæ og Bæ. Bræður þeirra Ólafur og Halldór voru reyndar þríburar en þriðji bróðirinn lést ársgamall. Þórmundur hafði verið leiguliði í Langholti. Júlíus hafði unnið víða í héraði við jarðvinnslu, fyrst með hestum en síðar dráttarvélum eftir að þær komu til. Guðbrandur vann við smíðar vítt um hérað, m.a. við byggingu Reykholtsskóla um 1930. Þekkt eru mörg hús í Borgarfirði þar sem sjá má handbragð Guðbrandar enn þann dag í dag. Þeir bræður, Júlíus og Guðbrandur höfðu því eignast fé sem gerði þeim kleift að kaupa þessa miklu jörð ásamt föður sínum. Guðbrandur kvæntist Kristínu Sveinbjarnardóttur frá Efstabæ í Skorradal og hófu þau búskap í Nýjabæ árið 1935. Árið áður fæddist Ólöf Kolbrún Guðbrandsdóttir heima í Bæ, 23. nóvember árið 1934 og er hún eina barn þeirra hjóna.

Einbirni og óhemja

„Ég var einbirni og óhemja. Þriggja ára var ég farin að fara á hestbak og fjögurra ára reið ég um allar sveitir,“ segir Ólöf Kolbrún eða Olla í Nýjabæ eins og hún er nefnd. Það geislar af henni ákafinn, hún er hraðmælt og skarpleit. „Alla tíð frá því ég man fyrst eftir mér, kom ég að öllum þeim verkum sem þurfti að sinna á heimilinu hvort sem það voru þessi svonefndu kvenmanns- eða karlaverk. Ég hafði mikinn áhuga fyrir hestum og fékk að sinna þeim nokkurnveginn eins og mig langaði, þegar ekki hvíldu á mér skyldustörf við búskapinn. Pabbi sá alltaf um að eiga góða reiðhesta þegar þeirra var þörf en svo þegar dráttarvélar komu til sögunnar og jeppinn, beindist áhugi hans að vélunum. Hann var bráðlaginn og uppátektasamur og lék allt í höndum hans hvort sem var tré eða járn.“ Sennilega hefur Guðbrandur í Nýjabæ verið einna fyrstur bænda til að nýta jarðhita og þurrka hey í hlöðu. Taðan í fjóshlöðinni í Nýjabæ var alltaf ilmandi og hvanngræn.

„Þegar pabbi eignaðist fyrst Massey Ferguson dráttarvél, sennilega árið 1958, smíðaði hann ámoksturstæki á vélina, gálgana og allt saman, alveg frá A – Ö,“ segir Olla. Á jörðinni var búið með kýr, fé og hross og þessum búskap sinnti hún með foreldrum sínum.

Að dansa var það skemmtilegasta

„Hér var farskóli þegar ég var krakki og ég man vel eftir Sigurði Jónssyni frá Brún sem einum af kennurunum. Ég var tvo vetur í Reykholti og síðan einn á Laugarvatni. Þar kynntist ég íþróttum og dansi. Veturinn 1954-1955 dvaldi ég á Húsmæðraskólanum á Blönduósi og dansaði þegar þess var kostur, það var það skemmtilegasta sem ég gerði, að dansa.“

Olla var alltaf heima yfir sumarmánuðina en vann ýmis störf í Reykjavík á veturna. „Ég saumaði á saumastofum, vann á hótelum og verslunum og naut þess að dansa á kvöldin með hópnum mínum. Á þessum árum var ég í 30 til 40 manna hópi sem dansaði sex daga vikunnar, bæði nýju og gömlu dansana og svo þjóðdansana með Þjóðdansafélagi Reykjavíkur. Allir dönsuðu við alla, ekkert lóðarí – ekkert vín. Þetta var fyrst og fremst gleðin að njóta dansins og eiga saman stundir sem sameinaði hópinn. Ég eignaðist marga góða vini á þessum árum,“ segir Olla og nýtur þess að rifja upp gamla tíma frá unglingsárum sínum og ekki laust við að hún sé dálítið dreymin á svip. „Þetta var yndislegur tími,“ bætir hún við.

Hélt áfram búskap

„Árið 1962 er Nýjabæ skipt í Nýjabæ I og Nýjabæ II. Þá hefjum við búskap í Nýjabæ II, ég og Reynir Guðmundsson maðurinn minn sem fæddur var á Sauðárkróki 18. júní árið 1938. Hann kom hér í hérað til að vinna hjá Rafmagnsveitum ríkisins og við kynntumst hér. Við áttum saman góð ár, sinntum búskapnum og félagslífinu og áttum það sameiginlega áhugamál að dansa saman eins oft og mögulega var hægt. Við byggðum alvöru hesthús árið 1980 og rúmaði það 24 hross. Sennilega eitt fyrsta húsið sem byggt er frá grunni í þeim tilgangi. Við höfum í ein 15 til 20 ár haft hér nemendur frá Hólum sem hafa verið þar við nám á hrossabraut.

Reynir veiktist í febrúar 1987, greindist með krabbamein í apríl og var látinn 22. júní. Við eignuðumst saman tvo drengi, Guðbrand fæddan í apríl 1966 og Kristinn í febrúar 1972. Hann er nú mín stoð og stytta við búskapinn,“ segir Olla.

Greinilegt er að fráfall eiginmannsins olli kaflaskiptum í lífi búkonunnar. „Já, þegar Reynir lést var erfið stund og maður spurði sig; hvað átti ég að gera? Hætta búskap og flytja burt, eða reyna að þrauka? Við ákváðum að búa áfram. Við erum með þetta 30 til 40 kýr, svona eftir því hvernig stendur á slátrun en sauðfénu hefur fækkað verulega. Í dag sinni ég búskapnum enn á fullu og hossast á dráttarvélunum eftir því sem þörf krefur. Við höfum nú reyndar fengið aðstoð frá ýmsum góðum vinum okkar hin síðari ár og þá einnig þeim sem hafa verið um sumartímann í sveit eins og gengur.“

Hrossaræktandinn Olla í Nýjabæ

En hvenær byrjar Olla í Nýjabæ afskipti af hrossaræktinni sem hún er landsfræg fyrir?

„Fyrsta hrossið sem ég eignaðist var rauð meri sem pabbi gaf mér þegar ég var 10 eða 11 ára. Þá var hún þriggja vetra og tamdi ég hana sjálf. Þegar Þórmundur afi var orðinn aldraður og lasburða gaf hann mér 8 vetra meri, jarptvístjörnótta sem var ótamin. Hún var kölluð Draugsa. Hana tamdi ég einnig og má segja að hún sé formóðir minna bestu hrossa. Hún var afkomandi Varmalækjarjarps. Ég tamdi sjálf öll mín hross þar til fyrir svona 10 árum að fleiri komu þar við sögu. Pabbi kenndi mér að smíða skeifur og þær smíðaði ég sjálf og járnaði mín hross frá fermingu allt þar til ég hætti að temja. Ég naut þess að fara á hestamannamót og taka þátt, bæði í kynbótasýningum og gæðingakeppni. Minningarnar frá þessum árum eru ánægjulegar og að sýna eigin hross sem maður tamdi sjálfur og hlotnast viðurkenning fyrir. Þessar stundir voru afar ljúfar; eins og þegar ég átti stóðhestinn Nóa í efsta sæti í fjögurra vetra flokki og númer tvö hann Stakk á Faxaborg árið1975, Þokkadís mín var efst í fimm vetra flokknum og Nótt í þriðja sæti með afkvæmum. Nú í sumar á Landsmótinu á Vindheimamelum átti ég í öðru og þriðja sæti hann Aðal sem er hæst dæmdi stóðhestur á Vesturlandi fyrr og síðar. Það var í mörg ár á þessum mótum að við Sigurborg á Hvanneyri, og nú á Bárustöðum, vorum bara tvær konurnar að sýna hross,“ segir Olla og bætir við: „Þetta hefur nú allt breyst til betri vegar. Það má heldur ekki gleyma því að hér á bæ eru margar viðurkenningar fyrir kynbætur fjár og kúa. Það er bara þannig að öll búfjárræktun hefur verið áhugamál, ég hef haft gaman af þessu öllu saman.“

Óhappalaus en með asma

Nú varst þú við útreiðar og tamningu hrossa í næstum hálfa öld, gekk þetta alltaf stórslysalaust? Olla hlær við og segir: „Þegar ég var fjögurra ára, þá hnaut með mig hross og það kom gat á kinnina á mér, þetta var eina slysið. Hafi ég verið hölt, skökk eða með hendina í fatla þá hefur það frekar verið eftir beljurnar en hrossin. En það eru nú rúmlega tvö ár síðan ég hef komið á hestbak, ég fékk einhver ónot í löppina. Kannski fer ég að ríða út aftur, er orðin miklu brattari.“

Þegar nær Ollu er gengið og spurt nánar um heilsufar, kemur eitt og annað í ljós:

„Frá því um fermingu hefur bakið verið að trufla mig. Ég var með hryggskekkju og þurfti í ein fjögur ár sérstaka meðferð þessvegna. Þá hefur ofnæmi fyrir þurrheyi þjakað mig, ryk er mér ofnæmisvaldur og ull. Einhvern tímann var ég sett í ofnæmsipróf og reyndist hafa ofnæmi fyrir öðru hverju þeirra efna sem prófuð voru. Þetta hefur samt allt bjargast. Eftir að heyinu var rúllað hætti ég að nota grímu og svo hef ég lyf við asma og bólgum sem brjótast stundum upp á yfirborðið ef ég gæti mín ekki, en þá er ég alveg að kafna.“

Enn á kafi í félagsmálum

En hvað með félagsmálin, hefur nokkur stund verið laus til að sinna þeim?

„Já, já, ég held ég hafi komið að flestum félögum sem hafa starfað eða starfa núna, sérstaklega þeim sem tengjast búskap eða skepnuhaldi. Ég hef reyndar aldrei leikið hjá ungmennafélaginu eða verið í kvenfélaginu. Þessa stundina er ég formaður veiðifélags um Flóku, búin að vera það síðan 1988 og öll veiðileyfi seljast eins og heitar lummur. Það er langt síðan Flóka hefur lent í bakslagi. Ég er núna í stjórn félags hrossabænda. Ég var í stjórn hestamannafélagsins Faxa í ein níu ár og er þar heiðursfélagi, mér þykir vænt um það.“

..Og þræla eins og hestur

„Fyrir alllöngu var hér við tamningar yndisleg stúlka sem nú er búsett í Bandaríkjunum. Hún gaf mér einhverju sinni lítinn platta með þessari áletrun: „Það er erfitt að vera kona, maður verður að hugsa eins og karlmaður, haga sér sem dama, líta út eins og ung stúlka – og þræla eins og hestur.“ Þetta finnst mér eiga ágætlega við mig,“ segir Olla brosandi að lokum.

Viðmælandi og Olla í Nýjabæ hafa setið við spjall í eldhúsinu í Nýjabæ í drykklanga stund ásamt kettinum Mozart. Þessi virðulegi köttur sem heitir í höfuðið á tónskáldinu er kominn á þrítugsaldur og situr á einum eldhússtólnum og mótmælir hástöfum öðru hverju að fá ekki fisk á diskinn sinn. Fjóshundurinn Miró sem er öldungur af Schefferhundakyni fær að líta inn. Stöðugt koma við gestir úr nágrenninu, stoppa stutt, sinna ýmsum erindum, þiggja kaffitár og kveðja og við þennan eril bætist síminn sem gjammar af og til. Það er erilsamt hjá Ollu í Nýjabæ, þótt komin sé á áttræðisaldurinn. Engin lognmolla þegar hún er annars vegar.

(Ófeigur Gestsson skráði, upphaflega birt í Skessuhorni í okt. 2006)

Líkar þetta

Fleiri fréttir