Á myndinni má sjá Alix mála portrett af Liston bæjarlistamanni í Grundarfirði.

Opin vinnustofa í Grundarfirði

Fáir erlendir listamenn hafi getað notið dvalar í gestavinnustofum landsins undanfarið og hafa margar þeirra því staðið auðar fyrir vikið. En á því eru undantekningar. Alix Philippe, belgísk listakona búsett í London, hefur frá því í október dvalið í Gestavinnustofu Artak350 að Grundargötu 26 í Grundarfirði. Alix er nú að ljúka dvöl sinni hér á landi, en vegna erfliðleika með flug og lokanir í Bretlandi þar sem hún er búsett, varð það úr að hún dvaldi þrjá mánuði í Grundarfirði. „Það er mikill fengur fyrir lítið bæjarfélag eins og Grundarfjörð að hafa gestavinnustofu sem tekur á móti alþjóðlegum listamönnum. Listamaður staðarins, hann Lúðvík Karlsson, segir það mikilvægt að fá tækifæri til að hitta aðra listamenn og ná spjalli og að spegla sig í því sem aðrir eru að gera. Listamennirnir setja svip sinn á bæjarlífið og vekja forvitni fólks á því hvaðan þeir koma og hvað þeir eru að sýsla,“ segir í tilkynningu frá Artak350.

Alix mun opna dyrnar á gestavinnustofunni mánudaginn 14. desember klukkan 17.00-21.00. þar sýnir hún þau verk sem hún hefur málað í Grundarfirði síðastliðnar vikur og mánuði. „Spennandi og falleg sýning, margir gætu séð fólk sem það þekkir eða kannast við eða jafnvel sjálft sig á striganum. Allir eru hjartanlega velkomnir. Farið verður í einu og öllu eftir sóttvarnarlögum,“ segir í tilkynningu. Alix sýnir þar stórt verk og margar skissur, portrettmyndir og landslagsmálverk sem unnin eru úti sem og olíu- eða akrýlmálverk á striga unnin á vinnustofunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir