Jólaútvarp GSNB í loftið í næstu viku

Þessa dagana eru nemendur í Grunnskóla Snæfellsbæjar á fullu að undirbúa Jólaútvarp GSNB sem er orðinn fastur liður í starfi skólans á aðventu. Eitt af því sem nemendur gera er að selja auglýsingar til fyrirtækja. Búa þau sjálf til auglýsingarnar sem eru metnaðarfullar og skemmtilegar; bæði lesnar og sungnar. Það er nemendaráð skólans sem sér um þetta með dyggum stuðningi Hullu, eins af kennurum skólans. Eru auglýsingarnar sumar svo flottar að heyrst hefur að fyrirtæki vilji jafnvel nota þær í öðrum fjölmiðlum. Það er spurning hvort þarna eru á ferðinni útvarpsfólk eða starfsmenn auglýsingastofa framtíðarinnar.

Á myndinni er nemendaráð skólans, en það skipa þau Íris Lilja Kapszukiewicz, Anja Huld Jóhannsdóttir, Unnur Birna Gunnsteinsdóttir, Emil Jan Jacunski og Davíð Svanur Hafþórsson. Á myndina vantar Stefaníu Klöru Jóhannsdóttur. Voru þau á fullu að vinna í Kárastudíói að semja og taka upp auglýsingar. Jólaútvarpi verður í loftinu dagana 14. til 17. desember. Hægt verður að hlusta í spilaranum á netinu, fm 103,5 í Ólafsvík og 106,5 á Rifi og Hellissandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.