Leggja til endurskoðun á lögum um Breiðafjörð og tilnefningu á lista Ramsarsvæða

Þann 24. nóvember síðastliðinn birti Breiðafjarðarnefnd á vefsíðu sinni samantekt á framvindu og niðurstöðum verkefnis sem gengið hefur undið nafninu Framtíð Breiðafjarðar. Skýrslan hefur verið í vinnslu á tímabilinu 2019-2020 og er nú til umsagnar hjá sveitarstjórnum beggja vegna Breiðafjarðar. Þá er sömuleiðis kallað eftir athugasemdum íbúa og rennur frestur til að gera athugasemdir út 19. desember næstkomandi.

Í niðurstöðum nefndarinnar segir að hún leggi til við ráðherra að hefja vinnu, sem fyrst, við að skoða og kynna ítarlega hvaða kosti og galla þeir möguleikar, sem taldir eru upp í skýrslunni, hafa fyrir Breiðafjarðarsvæðið. Þannig geti sveitarstjórnir og íbúar myndað sér upplýsta skoðun og tekið þátt í mótun framtíðar Breiðafjarðar. Þá segir: „Breiðafjarðarnefnd er einhuga um að í það minnsta þurfi að endurskoða lög um vernd Breiðafjarðar, gera þau sterkari og skýrari og að það verði gert sem fyrst. Um leið verði horft sérstaklega til þess möguleika að stækka svæðið svo það nái frá Bjargtöngum að Öndverðarnesi. Samhliða endurskoðun á lögum um vernd Breiðafjarðar leggur nefndin til við ráðherra að hann beiti sér fyrir því að Breiðafjörður verði tilnefndur á lista Ramsarsvæða. Um er að ræða eitt mikilvægasta fuglasvæði landsins og skráningin myndi aðeins hafa jákvæð áhrif á samfélögin við fjörðinn.

Breiðafjarðarnefnd telur að skoða ætti möguleika á því að skilgreina Breiðafjörð, að hluta til eða öllu leyti, sem þjóðgarð. Þar sem eignarhald á svæðinu er flókið er ólíklegt að það takist á næstu árum ef þjóðgarðurinn ætti að ná yfir allan Breiðafjörð. Því væri rétt að skoða möguleika á að skipta svæðinu í undirsvæði þar sem mismunandi reglur gilda. Þjóðgarður í sjó væri mögulegt fyrsta skref þar sem ríkið fer með eignarhald utan netlaga. Það væri auk þess í takt við skuldbindingar Íslands í alþjóðlegum samningum, svo sem OSPARsamningnum og samningnum um líffræðilega fjölbreytni. Einnig mætti kanna hvort hluti svæðisins, þar sem landeigendur væru áhugasamir, yrði gerður að þjóðgarði og stefna ef til vill að stækkun hans síðar. Í því samhengi væri fýsilegt að horfa til norðanverðs fjarðarins og mögulegrar tengingar við fyrirhugaðan þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum, sem nær meðal annars til Vatnsfjarðar en hann er friðland og hluti af verndarsvæði Breiðafjarðar. Undirbúningur þjóðgarðs á Breiðafirði gæti orðið tímafrekt verkefni sem ekki má hægja á endurskoðun laga um verndarsvæði Breiðafjarðar. Nefndin telur þó að stofnun þjóðgarðs megi taka tíma og eigi í raun að taka tíma svo að hægt verði að ná sem víðtækastri sátt um framkvæmdina. Það er skoðun nefndarinnar að þjóðgarður á Breiðafirði væri líklega það skref sem myndi gagnast samfélögum við fjörðinn betur en allar aðrar leiðir.“

Þá segir í niðurstöðum nefndarinnar að tilnefning Breiðafjarðar á Heimsminjaskrá UNESCO væri stórt skref sem þarfnist ítarlegs og vandaðs undirbúnings. „Nefndin telur rétt að skoða möguleika á því en að skynsamlegast væri að stefna að tilnefningu á heimsminjaskrá eftir að lög um svæðið hafa verið endurskoðuð, það tilnefnt á Ramsarskrá og ef til vill gert að þjóðgarði, að hluta eða öllu leyti. Breiðafjarðarnefnd ítrekar mikilvægi þátttöku og samráðs við sveitarstjórnir og íbúa í áframhaldandi vinnu og að þeir eigi mikla aðkomu að öllum stærri ákvörðunum í ferlinu. Stór hluti verndargildis svæðisins eru hlunnindanytjar, hefðin fyrir því að nýta gæðin og hvernig það er gert. Markmiðið með tillögum Breiðafjarðarnefndar er að með aukinni vernd þrífist blómlegt atvinnulíf sem byggir á sjálfbærri auðlindanotkun til framtíðar og að byggðir við fjörðinn styrkist.“

Hægt er að kynna sér skýrslu Breiðafjarðarnefndar í heild sinni á vefnum breidafjordur.is. Athugasemdum skal skila á netfangið breidafjordur@nsv.is. Frestur til þess að gera athugasemdir við skýrsluna er til 19. desember næstkomandi. Skýrsluna í heild má sjá hér að neðan:

thumbnail of 20201123_framtid_breidafjardar_samantekt

Líkar þetta

Fleiri fréttir