Lýsa andstöðu við tillögur um að Breiðafjörður fari á lista Ramsarsvæða

Fundur var haldinn í atvinnu- og nýsköpunarnefnd Stykkishólms 30. nóvember síðastliðinn. Þar var meðal annars kynnt samantekt og niðurstöður Breiðafjarðarnefndar um framtíð fjarðarins. Meirihluti atvinnu- og nýsköpunarnefndar Stykkishólms bókaði andstöðu við tillögur og hugmyndir Breiðafjarðarnefndar um að Breiðafjörður verði tilnefndur á lista Ramsarsvæða, að Breiðafjörður verði skilgreindur, að hluta til eða öllu leyti, sem þjóðgarður í sjó og að hafinn verði undirbúningur að tilnefningu Breiðafjarðar á Heimsminjaskrá UNESCO. „Varhugavert er að færa íhlutunarvald til alþjóðlegra stofnana,“ segir meðal annars í bókun sem fjórir af fimm nefndarmönnum rita undir; þau Halldór Árnason, Kári Hilmarsson, Kári Geir Jensson og Magda Kulinsku. Sara Hjörleifsdóttir greiddi atkvæði á móti.

„Atvinnu- og nýsköpunarnefnd telur að heimamenn séu best til þess fallnir að taka ákvarðanir í tengslum við vernd og umgengni á svæðinu sem og íslenskum stofnunum sem hafa það hlutverk að veita stjórnvöldum og hagsmunaaðilum ráðgjöf varðandi sjálfbæra nýtingu á lifandi auðlindum Breiðafjarðar á grundvelli nýtingarstefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd leggur því áherslu á að Hafrannsóknarstofnun verði gert kleift í samráði við hagsmunaaðila í heimabyggð, að efla rannsóknir á fjölbreyttu lífríki Breiðafjarðar og þeim möguleikum sem kunna að vera til staðar til að auka sjálfbæra nýtingu sjávarfangs til atvinnu- og verðmætasköpunar,“ segir í bókun meirihluta nefndarinnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir