Íbúum á Vesturlandi fjölgar lítilsháttar

Hagstofan hefur nú birt tölur um íbúafjölda 1. desember eftir sveitarfélögum. Landsmenn eru nú 368.620 og hefur fjölgað um 1,2% frá fyrra ári. Ef íbúafjöldatölur eru bornar saman við 1. desember 2019 kemur í ljós að íbúum á Vesturlandi hefur fjölgað um 31 á árinu, sem jafngildir 0,2%, eru í dag 16.697 talsins. Hlutfallslega hefur orðið mest fjölgun í Hvalfjarðarsveit í sveitarfélögum í landshlutanum, þar sem fjölgaði um 3,2%, eða um 20 íbúa. Þar eru nú 645 búsettir. Á Akranesi, fjölmennasta sveitarfélagi landshlutans eru íbúar nú 7.662, fjölgaði um 129 frá fyrra ári eða um 1,7%. Í Snæfellsbæ fjölgar um tíu íbúa, eða um 0,6%. Í Skorradal og Helgafellssveit er íbúatalan óbreytt frá því fyrir ári.

Í fimm sveitarfélögum á Vesturlandi fækkar íbúum frá fyrra ári. Hlutfallslega fækkar mest í Eyja- og Miklaholtshreppi, eða um fjóra íbúa sem jafngildir 3,2%. Í Borgarbyggð fækkar um 91 íbúa eða um 2,4%. Íbúar eru nú 3.764 í Borgarbyggð. Í Dalabyggð fækkar íbúum um 1,9%, eru nú 12 færri en í fyrra og samtals 622 þann 1. desember. Í Stykkishólmi fækkar um 14 íbúa frá í fyrra, eða um 1,2% og eru nú 1.197 búsettir þar. Í Grundarfirði fækkar um sjö íbúa frá fyrra ári, eða um 0,8% og eru nú 870.

Líkar þetta

Fleiri fréttir