Hross í Hvalfirði. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Hærri flúorstyrkur mælist í hrossum á Vesturlandi

Nýlega fór fram meistaraprófsvörn Brynju Valgeirsdóttur í búvísindum við deild Ræktunar og fæðu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Bar ritgerðin titilinn; „Flúor í íslenska hestinum“. Í kynningu á verkefni Brynju kemur fram að flúor í umhverfi á upptök sín frá bæði náttúrulegum uppsprettum og iðnaði og dreifist þaðan til grunnvatns og gróðurs. Hryggdýr sem útsett eru fyrir verulegum styrk flúors frá umhverfi eiga á hættu að verða fyrir bráðri flúoreitrun, eða þróa með sér króníska flúoreitrun eftir uppsöfnun flúors í kalkríkum vefjum líkamans. Markmið rannsóknar Brynu var að afla upplýsinga um flúorstyrk í íslenska hestinum og fá þar af leiðandi bakgrunnsgildi sem hægt væri að styðjast við í framtíðinni. Einnig að meta hvort munur væri á flúoruppsöfnun í beinum hrossa milli landshluta, og aldurshópa.

Í kynningu á verkefni Brynju á vef LbhÍ segir að styrkur flúors í kjálkasýnum 223 hrossa hafi verið mældur frá fjórum landshlutum; Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi og milli fimm aldurshópa (folalda, 1-4 vetra, 5-12 vetra, 13-20 vetra og 21 vetra og eldri). „Meðalstyrkur flúors í þessum sýnum mældist 244 ± 11,8 ppm (milljónahlutar), og 286 ± 12,6 ppm þegar sýni úr folöldum voru tekin út, en þessi gildi eru vel undir þekktum viðmiðunarmörkum. Hæsti flúorstyrkur fyrir hvern aldurshóp var úr hrossum af Vesturlandi. Marktæk fylgni var á milli flúorstyrks og aldurs hrossa, þar sem hæsti fylgnistuðullinn var í hrossum af Suðurlandi. Enn fremur var marktækur munur á flúorstyrk milli landshluta, þar sem hross af Vesturlandi mældust með marktækt hærri flúorstyrk í kjálkum en hross af Suðurlandi, en marktækur munur fannst ekki á flúorstyrk milli hrossa af Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi. Þegar fylgni flúorstyrks í hrossum af Vesturlandi eingöngu og fjarlægð þeirra frá álverinu í Hvalfirði var mæld, fannst marktæk neikvæð fylgni, sem gefur til kynna að drjúgur hluti flúors í íslensku umhverfi á rætur sínar að rekja til áliðnaðar.“

Þá segir að niðurstöður rannsóknarinnar séu þær fyrstu sinnar tegundar og gefi innsýn í flúoruppsöfnun í beinum íslenska hestsins og mun á flúorstyrk í umhverfi milli landshluta. Einnig benda niðurstöðurnar til þess að íslenski hesturinn safni upp minna magni af flúor í bein heldur en íslenskt sauðfé og sé vegna þess óhentug vísitegund þegar kemur að flúormengun í umhverfi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.