Svansvottun afhent Krónunni.

Allar Krónuverslanir nú með Svansvottun

Nú hafa allar verslanir Krónunnar í landinu hlotið Svansvottun, en um er að ræða opinbert og vel þekkt umhverfismerki á Norðurlöndunum sem er meðal annars með það markmið að lágmarka umhverfisleg áhrif á neyslu og framleiðslu vara. „Eitt þeirra umhverfismarkmiða sem Krónan setti sér fyrir árið 2020 var að fá Svansvottun fyrir allar verslanir okkar. Þetta er því stórt skref sem varðar þá samfélagslegu ábyrgð sem fyrirtækið leggur áherslu á og stendur fyrir. Svanvottun er ekki eitthvað sem þú færð bara einu sinni, heldur þarf að halda viðmiðum til að missa hana ekki. Við hjá Krónunni setjum okkur því áframhaldandi markmið á þessu sviði og fögnum þessum áfanga,“ segir Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar í tilkynningu.

Svansvottun þýðir meðal annars að 20% af öllum rekstrarvörum sem verslunin selur eru umhverfisvottaðar, 4% af matar- og drykkjarvöru eru lífrænt vottaðar, markviss áhersla er lögð á að sporna gegn matarsóun og flokkun er til fyrirmyndar, virk orkustefna sem dregur úr orkunotkun og Krónan notar einungis umhverfisvottaðar ræsti- og hreinlætisvörur fyrir eigin þrif og rekstur.

„Umhverfisstofnun og starfsfólk Svansins óska Krónunni innilega til hamingju með metnaðarfullt umhverfisstarf og hlakka til áframhaldandi samstarfs. Það er mjög verðmætt fyrir Svaninn að eiga sterkan samstarfsaðila sem er bæði nálægt neytendum og kemur við sögu í daglegu lífi einstaklinga,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir