Jólatónleikar Hljómlistarfélagsins verða 17. desember

Hljómlistarfélag Borgarfjarðar stendur fyrir árlegum jólatónleikum félagsins fjórða árið í röð fimmtudaginn 17. desember klukkan 20:30. „Í ár verða tónleikarnir þó með öðru sniði en venjulega vegna Covid 19 en við viljum gjarnan gefa til samfélagsins smá gleði fyrir jólin, þar af leiðandi verður tónleikunum streymt í samvinnu við Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar, öllum að kostnaðarlausu. En ef að einhverjir vilja ólmir borga sig inn, þá tökum við svo sannarlega vel á móti frjálsum framlögum, enda er mikill kostnaður á bakvið svona tónleika og ekki hafa verið mörg „giggin“ undanfarið hjá tónlistarmönnum,“ segir Þóra Sif Svansdóttir, formaður Hljómlistarfélags Borgarfjarðar og verkefnastjóri jólatónleikanna.

„Okkur fannst allir eiga skilið að fá smá hlýju og yl fyrir jólin frá okkur og við vitum að jólin verða erfið hjá mörgum. Því viljum við bjóða öllum á jólatónleikana,“ segir Þóra Sif. Þeir sem standa að tónleikunum í ár eru Daði Georgsson, Halldór Hólm Kristjánsson, Gunnar Reynir Þorsteinsson, Eiríkur Jónsson, Hafsteinn Óðinn Þórisson og Þóra Sif Svansdóttir. „Við fáum til okkar frábæra gesti úr Borgarfirði; þau Heiðrúnu Helgu Bjarnadóttur, Gunnhildi Völu Valsdóttur, Anítu Daðadóttur, Signýju Maríu Völundardóttur, Díönu Dóru Bergmann, Ólaf Flosason, söngnemendur Þóru Sifjar, trommunemendur Sigurþórs Kristjánssonar og söngleikjadeild Tónlistarskóla Borgarfjarðar. Einnig fengum við frábæra aðila með okkur í lokalagið sem vert er að minna á þessa dagana; Slökkvilið Borgarbyggðar, Björgunarsveitina Brák og Heilsugæsluna í Borgarnesi.“

Þóra Sif segir að hópurinn hafi verið heppinn að Landnámssetrið í Borgarnesi bauð þeim fallega aðstöðu hjá sér og verður tónleikunum streymt þaðan en einnig úr Borgarneskirkju. „Tónleikunum verður streymt á www.kvikborg.is fimmtudaginn 17. desember kl. 20:30, en streymið verður svo opið yfir jólin þannig að hægt verður að horfa á tónleikana aftur og aftur yfir hátíðirnar.“

Hlekkur á viðburðinn: https://www.facebook.com/events/454065589330817

Líkar þetta

Fleiri fréttir