Tillaga Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun á skipuriti Akraneskaupstaðar.

Hörð gagnrýni á meirihluta bæjarstjórnar vegna stjórnkerfisbreytinga

Á fundi bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar síðastliðinn þriðjudag, sem fram fór í gegnum fjarfundarbúnað, voru teknar til fyrri umræðu stjórnkerfisbreytingar sem meirihluti Samfylkingar og Framsóknar með frjálsum í bæjarstjórn hefur ákveðið og taka eiga gildi um næstu áramót. Ítarlega var sagt frá þeim tillögum í síðasta Skessuhorni og hér á vefnum í gær. Síðari umræða um breytingarnar er síðan fyrirhuguð 15. desember næstkomandi. Á bæjarstjórnarfundinum kom fram mjög hörð gagrýni minnihlutans, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, við tillögum meirihlutans. Telja þeir óljóst hverju breytingarnar munu áorka í fjárhagslegum sparnaði og uppfylli þannig ekki markmið meirihlutans; „að ná fram aukinni skilvirkni í starfsemi stjórnsýslu sveitarfélagsins með breytingum á stjórnun, verkferlum og samstarfi,“ eins og sagði í bókun meirihlutans á fundi bæjarráðs vikuna áður. Hörðust gagnrýni bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sneri hins vegar að þeirri staðreynd að búið væri að kynna væntanlegar stjórnkerfisbreytingar fyrir starfmönnum bæjarins, áður en þær hafi verið samþykktar með formlegum hætti í bæjarstjórn. Einar Brandsson bæjarfulltri (D) sagði í umræðunum að fram til þessa teldi hann samstarf minni- og meirihluta í bæjarstjórn hafi verið til fyrirmyndar. Þessi afgreiðsla stjórnkerfisbreytinga væri hins vegar fordæmalaus, án samráðs við minnihluta bæjarstjórnar og líkaði honum illa það verklag. Undir það tóku bæjarfulltrúarnir Rakel Óskarsdóttir og Sandra Margrét Sigurjónsdóttir.

Leggja til aðrar leiðir

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu á fundinum fram tillögu að stjórnkerfisbreytingum með töluvert öðrum áherslum en breytingarnar sem meirihlutinn stefnir að. Óskuðu þeir eftir því að tillaga þeirra fengi efnislega umfjöllun samhliða tillögum meirihlutans þar til síðari afgreiðslufundur um tillögurnar fer fram. Tillaga Sjálfstæðisflokksins snýst efnislega m.a. um að gerð verði sjálfstæð úttekt á rekstri og fjárhag Akraneskaupstaðar með það að markmiði að koma í ljósi þeirrar úttektar með tillögur að hagræðingu í stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins.

Skjóta fyrst og spyrja svo

Af umræðum í bæjarstjórn mátti heyra að djúpur áherslumunur er milli fulltrúa meiri- og minnihlutans í bæjarstjórn um fyrirhugaðar stjórnkerfisbreytingar. Í tvígang þurfti að gera hlé á fundi til að bæjarfulltrúar meirihluta gætu komið sér saman um viðbrögð við gagnrýni og tillögum minnihlutans. Mest gagnrýni Sjálfstæðismanna sneri að þeirri staðreynd að þeim hafi ekki verið hleypt að borðinu áður en búið var að kynna málið fyrir starfsfólki bæjarins um ýmsar breytingar sem snerta hagsmuni þess. Einar Brandsson rifjaði það upp að síðast þegar gerðar hafi verið breytingar á stjórnkerfi Akraneskaupstaðar, árið 2012, hafi minni- og meirihluti komist að niðurstöðu á lokuðum fundum áður en málið hafi verið kynnt, ekki síst hlutaðeigandi starfsfólki. „Nú er hins vegar búið að kynna breytingar sem ekki er búið að samþykkja í bæjarstjórn. Hér fara því fram umræður um nýjar stöður og breytingar á ýmsum störfum í beinni útsendingu,“ sagði Einar og undraðist sömuleiðis að búið væri að ráða í ný störf án auglýsingar. „Við eigum að tala saman, minni- og meirihluti, og tala okkur niður á breytingar af þessu tagi áður en þær koma til kynningar og framkvæmda. Meirihlutinn á að sjálfsögðu að ræða við minnihlutann áður en ráðist er í uppsagnir starfsfólks. Til þess erum við hér.“ Í lok ræðu sinnar varpaði Einar fram nokkrum fyrirspurnum um starf vitavarðar á Breið, en fyrir liggur að það starf verður skilgreint 20% starf frá áramótum og starfmanni boðin vinna við Guðlaugu eða sundlaug bæjarins. Um aðrar breytingar sem fyrirhugaðar eru vísast í frétt í Skessuhorni í gær.

Tillaga meirihluta Samfylkingar og Framsóknar með frjálsum sem lögð hefur verið fram í bæjarstjórn og kynnt starfsfólki.

Líkar þetta

Fleiri fréttir