FKA Vesturland, í samstarfi við Birnu Bragadóttur Marglyttu, með kynningu á sjósundi fyrir félagskonur FKA og vinkonur þeirra í Nauthólsvík. Viðburðurinn er upphitun fyrir sjósundsferð félagskvenna á Akranes þegar Covid-spáin leyfir. Ljósm. aðsend.

Fjölbreytt starfsemi nefnda og deilda um land allt hjá FKA

Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, er öflugt tengslanet kvenna úr öllum greinum atvinnulífsins. Félagið er hreyfiafl sem eflir fjölbreytileika atvinnulífsins, styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameinar konur til aukins sýnileika og þátttöku um land allt. FKA Vesturland var stofnað fyrir nokkrum árum og er deild innan samtakanna. „Ef þú vilt stórefla tengslanetið þitt, styrkja sjálfa þig og hafa áhrif í íslensku atvinnulífi þá hvetjum við þig til að vera með okkur og taka þátt í starfi FKA,“ segir Sandra Margrét Sigurjónsdóttir á Akranesi, en hún er formaður FKA Vesturland. Hún bætir því við að Félag kvenna í atvinnulífinu ætli ekki að láta heimsfaraldurinn taka meira af þeim en þegar hefur orðið. „Fjölbreytt starfsemi nefnda og deilda er innan FKA á höfuðborgasvæðinu og á landsbyggðinni og með tækninni höfum við færst nær hverri annarri þessar 1200 konur sem koma úr öllum greinum atvinnulífsins sem finna má um land allt.“

Sandra segir að með því að vera FKA kona takir þú þátt í öflugu starfi og ert hluti af hreyfiaflinu. „Það eru nefndir og svo deildir á landsbyggðinni. Hlutverk landsbyggðadeilda er að efla konur á landsbyggðinni og styrkja tengslanetið. Það er deildirnar FKA Norðurland, FKA Suðurland og FKA Vesturland þar sem ég er formaður. Við höfum verið með fundi, sjósund og frumkvöðlaspjall hjá FKA Vesturland það sem af er þessu starfsári en við erum jafnframt hluti af stóru neti FKA.“

„Samtalið hefur verið meira við hinar landsbyggðadeildir FKA og það var toppmæting á fund allra landsbyggðadeilda með stjórn FKA á Teams í vikunni,“ segir Sandra og bendir á að það eru áskoranir um land allt og að tengslanet FKA sé góð leið til að næra sig og vera samferða örðum konum í gegnum áskoranir vetrarins. „Það voru öflugar stjórnarkonur sem ræddu áherslur og áskoranir vetrarins um land allt á rafrænum fundi í vikunni sem leið. Eitt af því sem Covid hefur fært okkur er einfaldar leiðir til að koma konum af öllu landinu í einn sal til skrafs og ráðagerða,“ segir Sandra.

Hægt er að sækja um aðild á forsíðu heimasíðu Félags kvenna í atvinnulífinu á www.fka.is

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir