Gul viðvörun í dag og á morgun – norðan stormur og kalt í veðri

Gul viðvörun er í gildi fyrir öll spásvæði landsins í dag og á morgun. Fram að helgi verður ríkjandi hvöss norðanátt með frosti. Í hugleiðingu veðurfræðings segir að helstu breytingar til kvölds felist í að veður fari versnandi norðanlands og á Austurlandi. Stormur og stórhríð verður um allt norðan- og austanvert landið. Suðaustanlands er reiknað með hviðum allt að 35-45 m/s snemma í kvöld og til morguns, frá Lómagnúpi og austur á Norðfjörð.

Hér vestanlands á Faxaflóasvæðinu verður norðan stormur, 18-25 m/s, með vindhviðum að 40 m/s. Í fyrstu er versta veðrið bundið við sunnanvert Sæfellsnes, en síðar má búast við varasömum vindstrengjum við fjöll víðar á svæðinu, t.d. á Kjalarnesi. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni til að forðast foktjón. Við Breiðafjörð verður sömuleiðis norðan hvassviðri eða stormur; 15-25 m/s með snjókomu eða éljum og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði verða á svæðinu og færð getur spillst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir